Endurreisnarnefnd Sjálfstæðisflokksins - nauðsynlegt uppgjör

Vert er að hrósa Endurreisnarnefnd Sjálfstæðisflokksins fyrir að tala umbúðarlaust um þau mistök sem gerð voru við stjórn efnahagsmála á síðustu árum. Því aðeins að flokkurinn viðurkenni þau mistök sem hann hefur gert verður hann traustsins verður að nýju. Viðurkenning á mistökum er forsenda fyrir endurreisn flokksins.

Það að selja ekki báða bankana í dreifða eignaraðild við einkavæðingu þeirra verður að teljast með mestu mistökum sem gerð voru. Það að selja þá eftir gömlu helmingaskiptareglunni var ekki á samræmi við hugsjónir Sjálfstæðisflokksins. Ég man sérstaklega eftir því að rætt var opinskátt í stjórnendahóp er ég tilheyrði á þeim tíma að Halldór Ásgrímsson hafi freistað þess að fá Kaldbak og Ólaf Ólafsson til að sameinast um tilboð í Búnaðarbankann. Framsókn leit augljóslega þannig á það að eftir söluna á Landsbankanum að Búnaðarbankinn tilheyrði þeim. Auðvitað náðu samvinnumennirnir ekki saman þannig að báðir hóparnir gerðu tilboð í bankann sem var seldur Ólafi Ólafssyni og félögum. Spurningin er hvort Ólafur og félagar hafi verið í betra vinfengi við Halldór heldur en þeir Kaldbaksmenn. Eitt er þó klárt, Sjálfstæðisflokkurinn má aldrei aftur líða svona vinnubrögð.

Þá verður að taka undir það að það var fullkomlega fráleitt að enginn skyldi taka ábyrgð á bankahruninu á þeim 100 dögum sem liðu frá hruninu og ríkisstjórnin hrökklaðist frá. Sala ráðuneytisstjóra fjármálaráðuneytisins á hlutabréfum í Landsbankanum nokkrum dögum eftir fundi erlendis um Icesave hefði þurft að leiða til afsagnar hans umsvifalaust. Jafnvel þótt salan hafi verið af fullkomlega eðlilegum ástæðum. Þá hefði verið eðlilegt að gera breytingar á ríkisstjórninni vel fyrir jól til að auka trúverðugleika hennar. Flokkurinn þarf að setja sér ný viðmið um það hvað leiðir til afsagna kjörinna fulltrúa hans.

Rétt er að taka undir kafla nefndarinnar um pólitískar stöðuveitingar, þær eru með öllu óafsakanlegar. Ég er reyndar á því að almenna reglan hjá Sjálfstæðisflokknum undanfarinn 18 ár hafi verið að hæfi réði því hverjir væru ráðnir. Það er í samræmi við hugsjónir sjálfstæðismanna að hæfileikar manna ráði því hverjir hljóta aukna ábyrgð en ekki skoðanir þeirra. 

Margt annað í skýrslu Endurreisnarnefndar má taka undir og hún er gott innlegg í það að endurreisa traust á Sjálfstæðisflokknum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband