Framkvæmdastjórn Vatnajökulsþjóðgarðs verði flutt heim í hérað

Eftirfarandi bókun var samþykkt í byggðaráði Norðurþings á fimmtudaginn ásamt greinargerð:

Byggðaráð Norðurþings leggur til við umhverfisráðherra að stjórn og framkvæmdastjórn Vatnajökulsþjóðgarðs verði lögð niður. Eðlilegt er að framkvæmdastjórn Þjóðgarðsins verði flutt heim í héruð og svæðisráðunum verði falin stjórnun þjóðgarðsins. Svæðisráð myndu semja við fagaðila í héraði um framkvæmdastjórn viðkomandi rekstrarsvæðis. Þannig verði allt framkvæmdavald og fjárráð á viðkomandi rekstrarsvæðis í héraði.

Stjórn og starfsemi Vatnajökulsþjóðgarðs - greinargerð

Í aðdraganda að stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs voru haldnir kynningar- og samráðsfundir á starfssvæðum þjóðgarðsins m.a. í Þingeyjarsýslum. Á þessum fundum kom m.a. fram vilji til þess að auka þátt heimamanna við stjórnun þjóðgarðsins. Einnig var lögð mikil áhersla á þá atvinnusköpun sem fylgdi starfsemi þjóðgarðsins á svæðinu, sbr. markmið í reglugerð. Meðal Þingeyinga byggðust þarna upp vonir um ný vinnubrögð og stjórn náttúruverndarmála á svæðinu og að með friðlýsingu Vatnajökulsþjóðgarðs myndu skapast aukin tækifæri í atvinnulegu tilliti, bæði bein störf og afleidd þjónusta og ráðgjöf.

Vatnajökulsþjóðgarður var svo stofnaður með lögum nr. 60 þann 28. mars árið 2007. Í reglugerð nr. 608/2008 um Vatnajökulsþjóðgarð var kveðið sérstaklega á um að markmið friðlýsingar væri til þess fallið að styrkja byggð og atvinnustarfsemi í nágrenni þjóðgarðsins. Bæri því enn fremur að líta á Vatnajökulsþjóðgarð sem mikilvæga aðgerð til eflingar byggðar á svæðinu.

Stjórnun þjóðgarðsins og aðkoma heimamanna

Stjórnskipulag þjóðgarðsins var í lögunum ákveðið þannig að hann er ríkisstofnun og fer umhverfisráðherra með yfirstjórn mála er varða þjóðgarðinn. Með stjórn stofnunarinnar og umsjón með rekstri þjóðgarðsins fer sérstök stjórn skipuð af umhverfisráðherra. Hún er skipuð fjórum fulltrúum svæðisráða, sem talist geta fulltrúar heimamanna, auk þriggja annarra. Þjóðgarðinum er skipt upp í fjögur rekstrarsvæði sem rekin eru sem sjálfstæðar rekstrareiningar á ábyrgð þjóðgarðsvarða. Á hverju rekstrarsvæði starfar svæðisráð skipað af umhverfisráðherra til fjögurra ára í senn. Í hverju svæðisráði eiga sæti þrír fulltrúar sveitarfélaga á viðkomandi rekstrarsvæði og einn fulltrúi svæðisbundinna ferðamálasamtaka sem teljast vera fulltrúar heimamanna. Alls sitja sex fulltrúar í hverju svæðisráði. Þá er þjóðgarðsvörður á hverju rekstrarsvæði sem annast á daglegan rekstur og stjórn viðkomandi rekstrarsvæðis í umboði stjórnar.

Reynslan af stjórn þjóðgarðsins

Þrátt fyrir viðleitni stjórnvalda til að auka þátttöku heimamanna í stjórnskipulagi Vatnajökulsþjóðgarðs hefur reynsla af stjórnsýslu hans valdið vonbrigðum. Stjórnsýslan er flókin og mjög lagskipt, sem gerir það að verkum að boðleiðir verða langar frá æðstu stjórn til þeirra er framfylgja ákvörðum hennar. Svæðisráðin, sem endurspegla áttu svæðisbundnar áherslur og aðstæður, hafa lítil völd og eru einungis ráðgefandi gagnvart stjórn þjóðgarðsins. Svo þung stjórnsýsla er mjög óhagkvæm, bæði í framkvæmd og fjárhagslega. Ekki bætir úr að mál skuli hafa æxlast þannig að framkvæmdastjórn og aðalskrifstofa sé staðsett í hjarta Reykjavíkur. Þetta veldur því að framkvæmdastjórnin er fjarlæg og endurspeglar ekki svæðisbundna hagsmuni og aðstæður t.d. á norðursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs. Afleiðingarnar felast m.a. í brostnum væntingum til þeirrar atvinnulegu uppbyggingar sem boðuð var með stofnun þjóðgarðsins. Á það bæði við um stjórnun og faglega vinnu Vatnajökulsþjóðgarðs sjálfs, sem og afleidda atvinnustarfsemi í heimahéraði af uppbyggingu þjóðgarðsins.

 

Framtíð þjóðgarðsins

Þegar tiltrú heimamanna á gagnsemi Vatnajökulsþjóðgarðs er ekki lengur fyrir hendi má velta fyrir sér tilgangi hans. Þjóðgarðurinn mun aldrei þrífast og dafna í nábýli við þá sem ekki kunna að meta tilveru hans. Sé það vilji stjórnvalda að efna þau fögru fyrirheit sem lögð voru til grundvallar við stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs, styrkja hann og efla til framtíðar, þarf að endurskoða stjórnskipulag og starfsemi þjóðgarðsins. Taka þarf mið af þeirri reynslu sem nú er til staðar af stjórnkerfi og starfsemi þjóðgarðsins.

Stjórnskipulag Vatnajökulsþjóðgarðs þarf að endurskoða og einfalda til að tryggja betur framtíð hans, svæðisbundna hagsmuni og samskipti við heimaaðila á starfssvæði þjóðgarðsins. Stjórn og framkvæmdastjórn þjóðgarðsins þarf að færa í auknum mæli heim í hérað á viðkomandi rekstrarsvæðum. Rekstrarsvæðin verði sjálfsstæðari og svæðisráð fái aukin völd. Framkvæmdastjóri og aðalskrifstofa í Reykjavík yrðu aflögð enda er gert ráð fyrir því í lögum að stjórn þjóðgarðsins sé heimilt að gera samning við aðra opinbera stofnun eða fyrirtæki um að annast daglegan rekstur og umsýslu stjórnar. Stjórn og svæðisráð myndu semja við fagaðila í héraði um framkvæmdastjórn viðkomandi rekstrarsvæðis. Þannig verði allt framkvæmdavald og fjárráð á viðkomandi rekstrarsvæðis í héraði. Með þessu fyrirkomulagi styttast boðleiðir og stjórnkerfið yrði allt skilvirkara og í nánum tengslum við umhverfi sitt.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband