Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn verði sameinuð við Náttúrustofu Norðausturlands

Ég bloggaði fyrir stuttu um Vatnajökulsþjóðgarð og nauðsyn þess að færa stjórn hans heim í hérað. Hér er önnur bókun frá byggðaráði Norðurþings sem samþykkt var að mínu frumkvæði um tengt málefni ásamt greinargerð:

Byggðaráð Norðurþings leggur til við ríkisstjórnina að Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn verði sameinuð við Náttúrustofu Norðausturlands. Fyrir því eru nokkur afgerandi rök sem rakin eru í greinargerð með tillögunni.

Greinargerð byggðaráðs:

Í kvöldfréttum Stöðvar 2 þann 6. apríl var greint frá því að í umhverfisráðuneyti væri verið að ræða um mögulega sameiningu Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn (RAMÝ) við aðrar stofnanir. Í fréttinni var m.a. vitnað til ræðu Jóhönnu Sigurðardóttir, forsætisráðherra og formanns Samfylkingarinnar, sem hún hélt á fundi flokksstjórnar Samfylkingarinnar á Hótel Loftleiðum þann 27. mars sl. Þar ræddi hún m.a. um að fækka ríkisstofnunum um 30 – 40% á næstu 2 – 3 árum. Tekið var fram að ekkert væri þó búið að ákveða í þessum efnum.

RAMÝ er ein örfárra opinberra stofnana sem starfsemi hafa í Mývatnssveit. Stofnunin er rótgróin og nær starfsemi hennar í sveitinni aftur til ársins 1975. Starfsemin skiptir Skútustaðahrepp miklu máli og því er mikilvægt að hugmyndir um sameiningar séu ræddar í samráði við sveitarfélagið.

Sé það einlægur vilji ríkisvaldsins að sameina RAMÝ annarri eða öðrum sambærilegum stofnunum væri eðlilegast að horft væri til stofnana innan héraðs í stað stofnana með höfuðstöðvar og yfirstjórn annars staðar. Náttúrustofa Norðausturlands (NNA) er rekin sameiginlega af Skútustaðahreppi og Norðurþingi með stuðningi ríkisins og væri eðlilegast að líta til hennar þegar skoðaðir eru möguleikar á sameiningu RAMÝ við sambærilegar stofnanir. Fyrir auknu samstarfi eða samruna RAMÝ og NNA eru fjölmörg rök, s.s:

1. Mikilvægt er að stjórn og ákvörðunarvald stofnana sem starfræktar eru á jafn afmörkuðu svæði og við Mývatn og Laxá sé í héraði. Boðleiðir eru stuttar, stjórnun skilvirk og gott innsæi í staðbundnar aðstæður, bæði hvað varðar náttúru og samfélag. Aukin samvinna eða samruni stofnana innan héraðs er því æskilegust áður en horft er annað.

2.Hlutverk stofnananna eru að grunni til þau sömu. Hlutverk RAMÝ skv. lögum nr. 97/2004 er að stunda rannsóknir á náttúru og lífríki Mývatns og Laxár. Það fellur vel að hlutverki NNA sem er skv. lögum nr. 92/2002 m.a. að safna gögnum, varðveita heimildir um náttúrufar og stunda vísindalegar náttúrurannsóknir, einkum í þeim landshluta þar sem náttúrustofan starfar. Frekari hlutverk RAMÝ hafa ekki verið skilgreind með reglugerð eins og til stóð er ný lög tóku gildi um vernd Mývatns og Laxár árið 2004.

3.Starfssvæði RAMÝ fellur innan starfssvæðis NNA, sem nær frá Ólafsfirði í vestri, austur á Langanes.

4.Sérfræðiþekking innan stofnananna er að stórum hluta til sú sama; fuglavistfræði, vatnalíffræði og náttúruvernd. Innan raða NNA er mikil reynsla af Mývatnsrannsóknum meðal starfsmanna sem starfað hafa hjá RAMÝ til fjölda ára. Mikil samlegð og aukið hagræði fælist því í samnýtingu starfsfólks.

5.Sérhæfing stofnananna er sú sama. Rannsóknir á fuglum og vatnalífi auk náttúruverndar hafa verið einkennandi í starfsemi RAMÝ allt frá upphafi. Þetta eru einnig þau þrjú svið sem NNA hefur sérhæft sig á.

6.NNA sinnir fuglavöktun í Þingeyjarsýslum utan Mývatnssveitar á sambærilegan hátt og RAMÝ gerir í Mývatnssveit og með Laxá skv. sérstökum samningi við umhverfisráðuneytið.

7. Þarfir vegna rannsókna (tækjabúnaður, hugbúnaður o.fl.) eru svipaðar vegna sambærilegrar starfsemi. Sama á við um ýmsan annan kostnað sem báðar stofnanir þurfa að greiða í dag. Mikil hagræðing gæti falist í að samnýta aðstöðu og ýmsa aðra þjónustu með frekari hætti.

Það er lagalega tæknilegt úrlausnarefni hvernig mögulegum samruna NNA og RAMÝ yrði háttað. Líklega er það þó tiltölulega einfalt. Vegna víðtækari skírskotunar í lögum um starfsemi náttúrustofa væri rétt að miða við að NNA tæki við hlutverkum RAMÝ. Líklega þarf engu að breyta í lögum um starfsemi NNA þar sem starfsemi RAMÝ rúmast innan þeirra laga. Mögulega væri hægt að fella starfsemi RAMÝ undir starfsemi NNA með sérstökum samningi á milli NNA og umhverfisráðherra. Lögum um vernd Mývatns og Laxár þyrfti þó líklega að breyta að því leyti sem snýr að starfsemi RAMÝ.

Frá því NNA var komið á fót hefur tekist að byggja upp öfluga rannsóknastofnun með aðsetur á Húsavík. Mikil gróska hefur verið í starfseminni og þar starfa nú 5 manns á heilsársgrundvelli. Víðtækt hlutverk NNA og einfalt stjórnskipulag í héraði hefur veitt mikinn sveigjanleika í starfseminni. Sá sveigjanleiki hefur skilað miklu í þeirri grósku sem orðið hefur. Með samruna NNA og RAMÝ með þeim hætti sem lýst hefur verið hér að framan yrði til mjög öflug rannsóknastofnun í Þingeyjarsýslum með aðsetur á Húsavík og í Mývatnssveit. Samruninn myndi falla vel að markmiðum ríkisstjórnarinnar um aukna hagræðingu og einföldun á stofnanakerfinu. Starfsmenn yrðu a.m.k. 7 talsins miðað við núverandi starfsemi. Hagræðing vegna samrunans og meiri slagkraftur innan regluverks náttúrustofanna gæti leitt til fleiri starfa í framtíðinni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband