Hér birti ég viðtal sem birtist í Morgunblaðinu snemma í mars. Tel að viðtalið eigi erindi við fólk sem hefur áhuga á atvinnuuppbyggingu og baráttu fyrir byggð á landsbyggðinni;
"Jón Helgi Björnsson, formaður bæjarráðs Norðurþings, vill að orkan í Þingeyjarsýslum verði nýtt til að byggja upp atvinnu á svæðinu og breyta áratuga hnignun í vöxt. Á síðustu 15 árum hefur störfum í sveitarfélaginu fækkað um 32% og fólkinu um 15%. Jón Helgi er afar ósáttur við framkomu ríkisstjórnarinnar í málinu.
Við höfum í raun flutt út atvinnuleysið okkar, unga fólkið. Þessi þróun er auðvitað að mestu vegna fækkunar í hefðbundnum atvinnugreinum svæðisins, landbúnaði og sjávarútvegi. Fjölmargt hefur verið reynt til að snúa þessu við, og líklega er það helst ferðaþjónustan sem hefur heppnast vel. Þetta er hinsvegar þróun sem við sem samfélag sættum okkur ekki við eða viljum sjá áfram. Hver vill sjá allt unga fólkið flytja burt úr byggðarlagi? spyr Jón Helgi Björnsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga og formaður bæjarráðs Norðurþings af hálfu Sjálfstæðisflokksins.
Lengi hefur verið rætt um að leiðin til að snúa þessari þróun við sé að nýta orkuna á háhitasvæðunum í Þingeyjarsýslum. Rekstur Kröfluvirkjunar sýndi fram á möguleikana sem gáfust með nýtingu á jarðvarma, segir Jón Helgi. Árið 1999 stofnuðu Orkuveita Húsavíkur, Norðurorka og sveitarfélögin Aðaldælahreppur og Reykdælahreppur fyrirtækið Þeistareyki ehf. Tilgangurinn var að hefja boranir á Þeistareykjum til að rannsaka svæðið. Síðan þá höfum við borað sex djúpar tilraunaholur og svæðið er talið geta gefið rúmlega 200 megavött af orku, tilraunaholurnar sex gefa 45 megavött.
Árið 2005 keypti Landsvirkjun þriðjungshlut í félaginu og ári síðar var, að dómi Jóns Helga, gríðarlegum áfanga í baráttunni fyrir endurreisn í Þingeyjarsýslum náð þegar skrifað var undir viljayfirlýsingu um byggingu álvers Alcoa á Bakka. Loksins var komið verkefni sem var af þeirri stærð að það gæti snúið við þeirri þróun sem við höfum séð á undanförnum árum. Verkefni sem myndi skila 500-800 störfum eða öllum þeim störfum sem tapast hafa á síðustu fimmtán árum.
Vinnan gekk prýðilega
Unnið var skipulega eftir þessari viljayfirlýsingu en aðilar að henni voru ríkisstjórn Íslands, Alcoa og Norðurþing. Vinnan við verkefnið gekk prýðilega, flest gekk upp. Sérstaklega það sem laut að orkuöflun á Þeistareykjum en svæðið reyndist sérstaklega öflugt og borholur góðar. Þá gengu sveitarfélögin frá sameiginlegu svæðisskipulagi á háhitasvæðunum sem gerði ráð fyrir orkuöflun á fjórum svæðum Bjarnarflagi, Kröflu, Gjástykki og Þeistareykjum. Allur undirbúningur gekk vel en auðvitað lagði sveitarfélagið mikið undir og var búið að leggja meira en einn milljarð króna fram í hlutafé og ábyrgðum að ógleymdum tugum milljóna til skipulagsmála.
Jón Helgi segir allt hafa breyst á einum degi þegar Þórunn Sveinbjarnardóttir, þáverandi umhverfisráðherra, úrskurðaði að álver á Bakka þyrfti í sameiginlegt umhverfismat. Með því sneri hún við úrskurði Skipulagsstofnunar. Ákvörðunin var augljóslega tekin til að verjast fylgis8leka yfir til Vinstri grænna og torvelda framgang málsins. Enda voru einungis fjórar af átta framkvæmdum inni í hinu sameiginlega mati og því ekki um neitt heildstætt mat að ræða, segir hann.
Úrskurðurinn setti vinnu við umhverfismat allra framkvæmdanna fjögurra, sem úrskurðurinn tók til, á sama tímaplan. Áhrifin á Þeistareyki ehf. voru að umhverfismat fyrir Þeistareykjavirkjun tafðist um tæplega tvö ár. Bein afleiðing af því var að ekki var hægt að bora frekari tilraunaholur til að sannreyna hversu mikil orka er á svæðunum en til stóð að bora holur á vesturhluta svæðisins sem hefðu, að sögn Jóns Helga, gefið mun betri mynd af því hversu stórt og öflugt svæðið er til orkuvinnslu. Vegna þess að ekki var hægt að sannreyna orkumagnið þá var m.a. ekki hægt að semja um orkusölu og afhendingu. Þegar ekki er hægt að semja um orkusölu þá er erfitt að fjármagna framkvæmdir. Fáránleiki málsins var samt fyrst og fremst sá að þegar sameiginlega matið leit dagsins ljós var helsti veikleiki framkvæmdarinnar álitinn óvissa um orkumagn sem að mörgu leyti var afleiðing þess að ekki hefur verið hægt að bora tilraunaholur til að sannreyna orkumagnið. Þannig er málið eins og hundur sem eltir skottið á sér, segir Jón Helgi.
Hann segir stjórnmálamenn hafa nýtt sér niðurstöðu sameiginlega matsins til að færa rök fyrir því að ekki sé næg orka til stærri verkefna. Það er hámark hræsninnar í ljósi þess að það er að hluta til hinu sameiginlega mati að kenna að upplýsingarnar um orkumagn eru ekki nægilega góðar.
Jón Helgi segir Þórunni Sveinbjarnardóttur og Kristján Möller, fyrrverandi samgönguráðherra, raunar hafa fullyrt á fjölmennum fundi á Húsavík að úrskurðurinn myndi ekki tefja verkefnið nema hugsanlega um nokkra daga. Daginn eftir, þegar við héldum fast við þá skoðun okkar að úrskurðurinn hefði alvarleg áhrif á verkefnið, hringdu spunameistararnir í okkur og sögðu að við værum flón, við ættum að fagna úrskurðinum. Við sveitamennirnir klóruðum okkur auðvitað í kollinum þegar við höfðum fyrir framan okkur álit lögfræðinga sem fullyrtu að með úrskurðinum væri allt stopp. Hvernig átti að fagna því?
Bara tæknileg hindrun
Kostnaður Þeistareykja ehf. fyrir vinnuna í kringum hið sameiginlega umhverfismat hljóp á tugum milljóna króna. Að sögn Jóns Helga vissu allir sem komu að þeirri vinnu að sameiginlega matið var bara tæknileg hindrun sett fram í pólitískum tilgangi til þess eins að koma verkefninu fyrir kattarnef. Meginkostnaðurinn við ákvörðunina liggi þó í töfinni sem þetta hafi í för með sér fyrir félagið. Tveggja ára töf á framkvæmdum kostaði félagið 200-300 milljónir króna, að sögn Jóns Helga.
Eflaust finnst einhverjum þetta ekki miklir peningar í orkuiðnaði en öðru máli gegnir um eigendur Þeistareykja ehf. Tafir þessar hafa haft mikil áhrif á eigendur félagsins en þrjú sveitarfélög áttu meirihluta í félaginu. Þannig seldi Norðurorka fyrst sinn hlut í félaginu til Landsvirkjunar, væntanlega hafa þeir Akureyringar ekki séð sér fært að leggja félaginu til 60-70 milljónir á hverju ári meðan beðið er eftir að tæknilegar hindranir stjórnvalda væru yfirstignar.
Hvernig er þá staða Norðurþings?
Hún var auðvitað ekki sérlega sterk. Sveitarfélagið var skuldsett og átti ekki gott með að leggja félaginu til 70 milljónir króna á hverju ári sem drottinn gaf. Sérstaklega ekki eftir að ríkisstjórnin ákvað að framlengja ekki viljayfirlýsingu við Alcoa um byggingu álvers á Bakka. Sú ákvörðun lokaði fyrir möguleika sveitarfélagsins til að fjármagna sig. Auðvitað er mun auðveldara að fjármagna orkuframkvæmdir þegar orkukaupandinn er í hendi. Þegar aðilar eru komnir í einhverja skógarferð með ríkisstjórninni í leit að orkukaupendum, þ.e. einhverjum öðrum en Alcoa, þá vandast málið við fjármögnun. Það grátlega við þetta var að einungis sveitarfélagið var bundið af viljayfirlýsingunni við Alcoa en ekki Þeistareykir. Það félag gat því leitað að orkukaupendum að vild, jafnvel þótt menn ynnu áfram með Alcoa.
Rétt er að halda til haga að fulltrúar Norðurþings í stjórn Þeistareykja vildu að félagið færi í mál við umhverfisráðherra og fengi ákvörðun um sameiginlegt mat hnekkt. En við fengum ekki stuðning til þess í stjórn. Kannski ekki skrítið að fulltrúar Landsvirkjunar hafi ekki verið spenntir fyrir því að fara í mál við eigenda sinn. Afstaða fulltrúa Norðurorku voru hins vegar vonbrigði. Mín skoðun er sú að við hefðum átt að hnekkja þessari ákvörðun fyrir dómi því ákvörðunin var röng gagnvart eigendum Þeistareykja.
Á endanum varð sú ákvörðun ekki umflúin fyrir Norðurþing að selja frá sér stærsta hluta af hlut sínum í Þeistareykjum ehf. Auðvitað var eini kaupandinn ríkið í formi Landsvirkjunar, sá aðili sem setti sveitarfélagið í þessa stöðu. Fyrir sveitarfélagið var það bagaleg staða að þurfa selja því tilgangurinn með þátttöku í félaginu var ekki fyrst og fremst að hagnast á því heldur miklu fremur að sjá til að orkan yrði nýtt á heimaslóð og það sem fyrst. En tæknilegar hindranir stjórnvalda settu sveitarfélagið í stöðu sem það hafði ekki efnahagslega burði til að verjast. Tæknilegar hindranir sem ráðherrar virðast stoltir af að setja upp fyrir lítil sveitarfélög sem eru að reyna af veikum mætti að snúa vörn í sókn.
Hann segir nákvæmlega sama uppi á teningnum með Gjástykki sem ríkisstjórnin ákvað að friða. Menn voru ekki betur að sér um svæðið en það að álíta að það væri allt í Þingeyjarsveit. Það virtist koma þeim á óvart þegar þeim var bent á að stærstur hluti Gjástykkis væru í sveitarfélaginu Norðurþingi. Það er sjálfsagt ekki ástæða til að vinna heimavinnuna sína þegar markmiðið er að takmarka orkuframboð til álvers í Þingeyjarsýslum.
Þegar frumdrög að rammaáætlun um virkjunarkosti voru kynnt sveitarstjórnarmönnum á síðasta ári þá var ekki annað að sjá en Gjástykki væri einn af frambærilegustu kostunum, segir Jón Helgi. Fjármálaráðherra sagði nýlega að beðið verði eftir niðurstöðum úr rammaáætlun um virkjunarkosti áður en farið verði í virkjanir í neðri Þjórsá. Hvers vegna á ekki það sama að gilda um Gjástykki sem hefur gilt skipulag sem gerir ráð fyrir orkuvinnslu á 2% af svæðinu? Sveitarstjórnir hafa takmarkaðan eða engan áhuga á friðlýsingu svæðisins enda vita þau sem er að markmiðið með því er að bregða fæti fyrir uppbyggingu iðnaðar á svæðinu. Hvað annað skýrir að þetta svæði sé ekki metið eftir niðurstöðu rammaáætlunar?
Ekki hent fyrir borð
Eftir að viljayfirlýsing við Alcoa var ekki framlengd var gengið frá viljayfirlýsingu milli sveitarfélaganna Skútustaðahrepps, Þingeyjarsveitar, Norðurþings og ríkisins. Stofnuð var svokölluð NAUST-nefnd sem hefur það hlutverk að finna kaupendur að orkunni í Þingeyjarsýslum. Í henni eru fulltrúar sveitarfélaganna, Landsvirkjunar og ríkisins. Við samþykktum að fara þessa leið eftir að iðnaðarráðherra hafði fullyrt við okkur að verkefnið með Alcoa ætti sömu möguleika og önnur verkefni í þessu ferli, þessum klára möguleika okkar til uppbyggingar yrði ekki hent fyrir borð.
Sú nefnd átti samkvæmt viljayfirlýsingunni að skila áfangaskýrslu í maí á síðasta ári og svo átti að hefja samningaviðræður við þá aðila sem metnir voru fýsilegastir. Niðurstaðan kom í skýrslu í vor, þar sem verkefnið með Alcoa og bygging álvers á vegum kínversks fyrirtækis voru metnir bestu kostirnir. Málið var hinsvegar það að seinni hluti verkefnisins, það er að semja við þessa aðila, varð að engu. Við vitum ekki hvort rætt hafi verið við þessa aðila af alvoru og höfum reyndar efasemdir um að svo sé. Í stað þess var settur á stað spuni um að Alcoa hefði í raun ekki áhuga á verkefninu, það væru bara starfsmenn Alcoa á Íslandi sem hefðu áhuga. Ég vona að heimsókn æðstu stjórnenda Alcoa í febrúar hafi fært stjórnvöldum heim sanninn um að áhugi fyrirtækisins á verkefninu er raunverulegur.
Jón Helgi gengst við því að vera álvers8sinni sem er auðvitað hræðilegt hlutskipti, eða þannig. Sérstaklega fyrir mig, líffræðinginn, sem hef nú frekar lítið þol fyrir lúpínu og sígrænum trjám.
Hann segir menn í Norðurþingi óspart hvatta til að huga að öðrum möguleikum í atvinnuuppbyggingu en vandamálið sé að á þeim fimm árum, sem hann hefur komið að þessu verkefni, hafi hann ekki rekist á neitt verkefni sem jafnist á við byggingu álvers á vegum Alcoa. Ekkert annað verkefni virðist skapa jafn mörg störf eða vera jafn umhverfisvænt eða hafa sama fjárhagslega styrk.
Við höfum enga fordóma fyrir öðrum möguleikum, finnst að mörgu leyti tilhugsunin um fleiri en eitt fyrirtæki bara spennandi. Við höfum skoðað alla kosti með jákvæðum hug. En verkefnið þarf þó að vera af þeirri stærð að það geti staðið undir nauðsynlegri uppbyggingu á innviðum svo sem línulögnum. Þar erum við að tala um orkukaupanda eða kaupendur sem þurfa um 250 megavött af orku og möguleika á að skapa 500-700 störf.
Orkan skapi störf
Jón Helgi heldur reyndar að þær breytingar sem Landsvirkjun hefur viljað gera á samningum, í þá veru að kaupandinn og Landsvirkjun skipti með sér áhættu af því hvort næg orka næst, séu skynsamlegar og hægt sé að semja um þær. Ég vek reyndar athygli á því að nú er ekki lengur hægt að flytja orku inn á svæðið tímabundið eins og rætt var um í upphafi. Við erum auðvitað sammála því að sem hæst verð fáist fyrir orkuna en leggjum meiri áherslu á það að orkan skapi störf og umsvif í okkar samfélagi þannig að samfélag í Þingeyjarsýslum fái viðspyrnu til vaxtar og endurreisnar.
Jón Helgi telur líklegt að mun meira orkumagn sé á háhitasvæðum í Þingeyjarsýslum heldur en 400 megavött og bendir á, að búið er að klára umhverfisferla eða umhverfismöt fyrir um 525 megawöttum af orku í Þingeyjarsýslum.
Vitaskuld er runnið upp fyrir okkur að samið hafi verið um það að álver á Bakka yrði ekki byggt þegar núverandi ríkisstjórn var mynduð. Það er hundfúlt að hlaupa alltaf á vegg þegar þetta verkefni kemur upp. Heiðarlegra hefði verið að segja okkur það í upphafi. Flest gerum við ráð fyrir að þurfa að sitja af okkur núverandi ríkisstjórn áður en nokkuð gerist í framkvæmdum í Þingeyjarsýslum.
En mótlætið herðir menn bara, að sögn Jóns Helga, í þeirri ætlan að orkan í Þingeyjarsýslum verði nýtt til að byggja upp atvinnu þar og breyta áratuga hnignun í vöxt. Tvö ár eru ekki svo langur tími í þingeyskri sögu. Eitt er þó klárt, reyni menn að nýta orkuna án þess að þessir hagsmunir okkar séu tryggðir, þá munu menn upplifa nýja Laxárdeilu. Þar sem hefðbundnum baráttuaðferðum Þingeyinga verður beitt af fullri hörku!"
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.