Hófaskarðsleið á valdi umhverfisráðherra

Hún lætur ekki mikið yfir sér fréttin um að Hófaskarðsleið verði ekki kláruð í bráð. Hér er þó um stóra frétt að ræða fyrir íbúa í Norður-Þingeyjarsýslu. Vegurinn yfir Hófaskarð mun gjörbreyta samgöngum milli Þórshafnar, Kópaskers og Raufarhafnar. Íbúar á svæðinu eru búnir að berjast lengi fyrir þessari tengingu. Hafa í raun sýnt ótrúlegt umburðalyndi við að bíða eftir þessum úrbótum. En vegurinn  styttir vegalengdina milli Kópaskers og Þórshafnar um 50 km. Samtals er búið að eyða tæplega tveim milljörðum í þennan 54 km veg sem bíður eftir því að verða tengdur við veginn til Húsavíkur eða veginn til Kópaskers eftir því í hvora áttina maður fer.

En vegna deilna við landeigendur varða að finna nýja veglínu fyrir síðustu 2 kílómetrana. Fallið hefur hæstaréttardómur í málinu þar sem veglínu um land Brekku var hafnað. Ný tillaga Vegagerðarinnar er gerð í sátt við landeigendur. En nú þarf Skipulagsstofnun að láta til sín taka, 2 km kaflinn skal í umhverfismat. Öllum er þó ljóst að ekki er samkomulag um aðra veglínu.  Málið er nú í höndum umhverfisráðherra sem getur látið umhverfismatið fara fram og tafið þannig tengingu við veginn í tæplega ár. Eða umhverfisráðherra getur hafnað því að umhverfismat fari fram þannig að tenging við hinn nýja veg geti farið fram í haust.

 Séu einhverjir íbúar á þessu landi sem eiga það skilið að stjórnvöld bregðist þeim ekki þá eru það íbúar í Norður-Þingeyjarsýslu. Þeirra vegasamgöngur hafa verið hörmulegar alltof lengi. Ég skora á umhverfisráðherra að láta ekki fara fram tilgangslausa æfingu í umhverfismati á veg sem hvergi annarsstaðar getur verið lagður. Rétt er að úrskurða strax á morgun að þessi vegspotti fari ekki í umhverfismat þannig að íbúarnir fái langþráða tengingu í haust. Málið er í höndum umhverfisráðherra.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Geta kjósendur VG í kjördæminu ekki beitt formann sinn þrýstingi?

Elias Bjarnason (IP-tala skráð) 21.8.2009 kl. 13:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband