Sveitarstjórn Norðurþings vill framlengja viljayfirlýsingu við Alcoa um álver á Bakka

Eftirfarandi bókun var samþykkt í sveitarstjórn Norðurþings í gær með 8 atkvæðum af 9. Sýnir hún svo ekki verður um villst hver hugur sveitarstjórnar Norðurþings er til álvers á Bakka.

"Vegna umræðna um framlengingu á viljayfirlýsingu milli Iðnaðarráðuneytisins fyrir hönd ríkisvaldsins, Norðurþings og álframleiðandans Alcoa, vilja neðangreindir sveitarstjórnarfulltrúar koma eftirfarandi á framfæri.

Þann 16. maí árið 2006 var skrifað undir viljayfirlýsingu þess efnis að kanna arðsemi þess að reisa álver í landi Bakka með árlega framleiðslugetu upp á 250 þúsund tonn.  Í viljayfirlýsingunni er skýrt kveðið á um hvaða spurningum þurfi að svara til að endanleg ákvörðun um framkvæmdir verði tekin.  Almennt séð er óhætt að segja að verkefnið hafi gengið vel og öll stærri nágrannasveitarfélög okkar lýst yfir stuðningi við verkefnið.  Verkefnið sem án efa mun hafa mikil og góð samfélagsáhrif í Þingeyjarsýslum með þeim hætti að viðvarandi fólksfækkun vegna atvinnustigs, verði snúið til betri vegar.  Því skal einnig haldið til haga að mikil og góð samstaða hefur verið innan sveitarstjórnar um verkefnið að einum sveitarstjórnarfulltrúa undanskildum.

Á fundum byggðarráðs og á vettvangi sveitarstjórnar hafa farið fram miklar umræður um stóriðju í landi Bakka.  Fulltrúar byggðarráðs og sveitarstjórnar hafa ávalt verið opnir fyrir því að aðrar hugmyndir séu skoðaðar samhliða því mikilvæga verkefni sem unnið hefur verið að síðast liðin þrjú ár.  Staðreyndin er hins vegar sú að þrátt fyrir miklar umræður og ítarlegar athuganir, hafa aðrir raunhæfir kostir ekki litið dagsins ljós.

Undirritaðir sveitarstjórnarfulltrúar telja það mikinn ábyrgðarhluta að klára þá vegferð sem hafin var þann 16. maí 2006, með því að vinna að framlengingu viljayfirlýsingar sem er ásættanleg fyrir alla málsaðila.  Í því fellst að rannsóknarboranir á Þeistareykjum verði kláraðar, orkumagn og afhendingartími staðfestur og ákvörðun um byggingu stóriðju tekin".


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband