Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Hófaskarðsleið á valdi umhverfisráðherra

Hún lætur ekki mikið yfir sér fréttin um að Hófaskarðsleið verði ekki kláruð í bráð. Hér er þó um stóra frétt að ræða fyrir íbúa í Norður-Þingeyjarsýslu. Vegurinn yfir Hófaskarð mun gjörbreyta samgöngum milli Þórshafnar, Kópaskers og Raufarhafnar. Íbúar á svæðinu eru búnir að berjast lengi fyrir þessari tengingu. Hafa í raun sýnt ótrúlegt umburðalyndi við að bíða eftir þessum úrbótum. En vegurinn  styttir vegalengdina milli Kópaskers og Þórshafnar um 50 km. Samtals er búið að eyða tæplega tveim milljörðum í þennan 54 km veg sem bíður eftir því að verða tengdur við veginn til Húsavíkur eða veginn til Kópaskers eftir því í hvora áttina maður fer.

En vegna deilna við landeigendur varða að finna nýja veglínu fyrir síðustu 2 kílómetrana. Fallið hefur hæstaréttardómur í málinu þar sem veglínu um land Brekku var hafnað. Ný tillaga Vegagerðarinnar er gerð í sátt við landeigendur. En nú þarf Skipulagsstofnun að láta til sín taka, 2 km kaflinn skal í umhverfismat. Öllum er þó ljóst að ekki er samkomulag um aðra veglínu.  Málið er nú í höndum umhverfisráðherra sem getur látið umhverfismatið fara fram og tafið þannig tengingu við veginn í tæplega ár. Eða umhverfisráðherra getur hafnað því að umhverfismat fari fram þannig að tenging við hinn nýja veg geti farið fram í haust.

 Séu einhverjir íbúar á þessu landi sem eiga það skilið að stjórnvöld bregðist þeim ekki þá eru það íbúar í Norður-Þingeyjarsýslu. Þeirra vegasamgöngur hafa verið hörmulegar alltof lengi. Ég skora á umhverfisráðherra að láta ekki fara fram tilgangslausa æfingu í umhverfismati á veg sem hvergi annarsstaðar getur verið lagður. Rétt er að úrskurða strax á morgun að þessi vegspotti fari ekki í umhverfismat þannig að íbúarnir fái langþráða tengingu í haust. Málið er í höndum umhverfisráðherra.


Fyrning aflaheimilda

Hugmyndir um fyrningu aflaheimilda eru vanhugsaðar. Í einum vetfangi er ætlunin að gera sjávarútveginn aflvana. Flest sterkustu fyrirtæki landsbyggðarinnar eru sjávarútvegsfyrirtæki, í raun má segja að þau séu bakbeinið í atvinnulífi landsbyggðarinnar. Ekki er nú hægt að dást að stjórnviskunni við það að draga á þennan hátt máttinn úr þeim iðnaði sem draga þarf vagninn í endurreisn atvinnulífsins. Sérstaklega þegar stjórnvöld þurfa að endurreisa bankakerfið, skera niður ríkisútgjöld og sækja um aðild að ESB. Spurningin hvort ekki sé hægt að finna eitthvert annað svið þjóðlífsins sem hægt er að setja í uppnám.

 Fólk á landsbyggðinni gerir þá kröfu til stjórnvalda að hagsmunir atvinnulífsins þar séu hafðir í fyrirrúmi. Ef nauðsynlegt er að ná fram réttlæti vegna kvótakerfisins þá er eðlilegt að menn skattleggi sérstaklega hagnað þeirra sem selja sig út úr kerfinu frekar en að hegna þeim sem keypt hafa aflaheimildir. Þá má hugsa sér að innheimta frekar auðlindagjald sem um munar. Það að svipta öll sjávarútvegsfyrirtæki í landinu veðhæfi er einfaldlega galið og ekkert réttlæti í því.


Endurreisnarnefnd Sjálfstæðisflokksins - nauðsynlegt uppgjör

Vert er að hrósa Endurreisnarnefnd Sjálfstæðisflokksins fyrir að tala umbúðarlaust um þau mistök sem gerð voru við stjórn efnahagsmála á síðustu árum. Því aðeins að flokkurinn viðurkenni þau mistök sem hann hefur gert verður hann traustsins verður að nýju. Viðurkenning á mistökum er forsenda fyrir endurreisn flokksins.

Það að selja ekki báða bankana í dreifða eignaraðild við einkavæðingu þeirra verður að teljast með mestu mistökum sem gerð voru. Það að selja þá eftir gömlu helmingaskiptareglunni var ekki á samræmi við hugsjónir Sjálfstæðisflokksins. Ég man sérstaklega eftir því að rætt var opinskátt í stjórnendahóp er ég tilheyrði á þeim tíma að Halldór Ásgrímsson hafi freistað þess að fá Kaldbak og Ólaf Ólafsson til að sameinast um tilboð í Búnaðarbankann. Framsókn leit augljóslega þannig á það að eftir söluna á Landsbankanum að Búnaðarbankinn tilheyrði þeim. Auðvitað náðu samvinnumennirnir ekki saman þannig að báðir hóparnir gerðu tilboð í bankann sem var seldur Ólafi Ólafssyni og félögum. Spurningin er hvort Ólafur og félagar hafi verið í betra vinfengi við Halldór heldur en þeir Kaldbaksmenn. Eitt er þó klárt, Sjálfstæðisflokkurinn má aldrei aftur líða svona vinnubrögð.

Þá verður að taka undir það að það var fullkomlega fráleitt að enginn skyldi taka ábyrgð á bankahruninu á þeim 100 dögum sem liðu frá hruninu og ríkisstjórnin hrökklaðist frá. Sala ráðuneytisstjóra fjármálaráðuneytisins á hlutabréfum í Landsbankanum nokkrum dögum eftir fundi erlendis um Icesave hefði þurft að leiða til afsagnar hans umsvifalaust. Jafnvel þótt salan hafi verið af fullkomlega eðlilegum ástæðum. Þá hefði verið eðlilegt að gera breytingar á ríkisstjórninni vel fyrir jól til að auka trúverðugleika hennar. Flokkurinn þarf að setja sér ný viðmið um það hvað leiðir til afsagna kjörinna fulltrúa hans.

Rétt er að taka undir kafla nefndarinnar um pólitískar stöðuveitingar, þær eru með öllu óafsakanlegar. Ég er reyndar á því að almenna reglan hjá Sjálfstæðisflokknum undanfarinn 18 ár hafi verið að hæfi réði því hverjir væru ráðnir. Það er í samræmi við hugsjónir sjálfstæðismanna að hæfileikar manna ráði því hverjir hljóta aukna ábyrgð en ekki skoðanir þeirra. 

Margt annað í skýrslu Endurreisnarnefndar má taka undir og hún er gott innlegg í það að endurreisa traust á Sjálfstæðisflokknum.


Hvaða vitleysa er þetta

Það er í hæsta máta undarlegt að vera á móti framkvæmdum við framleiðsluiðnað sem hefur reynst sterk stoð í íslensku atvinnulífi. Sérstaklega þegar á annan tug þúsunda íslendinga er atvinnulaus. Auðvitað veit Steingrímur það og hleypir því málinu í gegn þó hann reyni að forðast pólitíska ábyrgð á verkefninu.

 Fjárfestingasamningur við Norðurál í Helguvík hlýtur þó augljóslega að setja fordæmið fyrir samskonar samningi fyrir verkefnið á Bakka. Ekki gengur að setja því verkefni harðari skilyrði en Helguvík.


mbl.is Steingrímur á móti Helguvík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Byrjaður að blogga

Hef eytt ótöldum kvöldum við að lesa blogg. Ekki stórmannlegt að sitja hjá og tími kominn til að láta skoðanir skýrt í ljós. Hér mun ég blogga um pólitík, orkumál, náttúruvernd og veiði.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband