Framkvæmdastopp í Þingeyjarsýslum hefur ekkert með Icesave að gera

Mánudaginn 8. mars birtist þessi grein eftir mig í Morgunblaðinu. 

Undanfarna daga hafa margir látið í ljós áhyggjur af því að Icesave málið hafi þau áhrif að uppbygging stóriðju stöðvist. Icesave hefur ekki haft teljandi áhrif á uppbyggingu stóriðju á Bakka. Stjórnvöld haft hinsvegar haft mikil áhrif. 

Úrskurður um sameiginlegt mat

Þegar Þórunn Sveinbjarnardóttir snéri við úrskurði Skipulagsstofnunar og setti fjögur verkefni við álver á Bakka í sameiginlegt umhverfismat sumarið 2008 varð stóriðjustopp í Þingeyjarsýslum. Umhverfismat fyrir Þeistareykjavirkjun var komið vel á veg en stefnt var á að því lyki í febrúar 2009. Markmiðið með þessari tímasetningu matsins var að  framkvæma tilraunaboranir sumarið 2009 til að sannreyna orkumagn á svæðinu. Staðan nú er sú að umhverfismatinu hefur þegar seinkað um ár og miklar líkur eru á að því ljúki ekki fyrr en í haustmánuðum. Ákvörðunin hefur þannig þegar seinkað öllum framkvæmdum á Þeistareykjum um ár en mun líklega seinka þeim um tvö ár.

Kostnaðurinn fyrir Þeistareyki ehf hleypur á tugum milljóna bara fyrir vinnuna í kringum hið sameiginlega umhverfismat. Enginn sem vinnur þessa vinnu telur að sameiginlega matið muni bæta nokkru við mat á umhverfisáhrifa framkvæmdanna heldur sé fyrst og fremst um tæknilega hindrun á verkefninu að ræða. Megin kostnaðurinn við ákvörðunina liggur þó í töfinni sem þetta hefur í för með sér. En tveggja ára töf á framkvæmdum kostar Þeistareyki ehf á milli 200-300 milljónir.  

Viljayfirlýsing ekki framlengd 

Þrátt fyrir skýran vilja meirihluta sveitarstjórna í Norðurþingi um að framlengja viljayfirlýsingu við Alcoa um byggingu álvers á Bakka hafnaði ríkisstjórnin því. Þetta gerði ríkisstjórnin þrátt fyrir að ríkið, Norðurþing og Alcoa hafi unnið í tæplega 4 ár að verkefninu. Þrátt fyrir að heimamenn litu á verkefnið sem góða leið til að setja varanlega trausta stoð undir atvinnulíf svæðisins. Heimamenn samþykktu að lokum að setja málið í annan farveg. Skrifuðu upp á yfirlýsingu um að orkan yrði notuð í Þingeyjarsýslu og stofnaður yrði sérstakur vinnuhópur sem finna ætti orkukaupenda. Markmið þeirrar vinnu sem hófst í kjölfar undirritunarinnar var að skapa þær aðstæður að 1. október 2010 verði allri nauðsynlegri forvinnu lokið þannig að unnt verði að ganga til samninga við stóran orkukaupanda / orkukaupendur um uppbyggingu orkufreks iðnaðar í Þingeyjarsýslum. 

Fulltrúar Norðurþings komu því skýrt til skila fyrir undirritun þessa samkomulags að þeir litu á Alcoa sem einn af þeim aðilum sem sterkast kæmi til greina að semja við. Enda má búast við að umhverfismati álvers á Bakka verði lokið í sumar eða haust og þá ekkert að vanbúnaði að hefjast handa.   

Vandamálið er viðhorf ríkisstjórnarinnar

Vandamálið er hinsvegar að ríkisstjórnin hefur engan áhuga á verkefninu á Bakka og að sjálfsögðu gerir fjárfestirinn sér grein fyrir því. Slit á fjögurra ára samstarfi, álagning nýrra skatta, ýmis ummæli ráðherra og ekki síst algjört áhugaleysi ríkistjórnar á verkefninu hrekur fjárfestinn á brott. Þá veit Alcoa fullvel að forsvarsmenn Norðurþings reyndu ítrekað að koma verkefninu á Bakka inn í stöðuleika sáttmála ríkisins og aðila vinnumarkaðarins án árangurs. Það var okkur reyndar hulin ráðgáta hversvegna verkefnið á Bakka fékk ekki stuðning meðan bæði stækkun Straumsvíkur og Helguvík fengu inni. Sérstaklega þegar litið er til þess að fjárhagslegur styrkur Alcoa gæti auðveldað fjármögnun virkjanna en fjármögnun er einmitt megin vandamál framkvæmda í dag. 

Vitað er að Alcoa hefur fjárfest í öðrum verkefnum meðan stjórnvöld hafa tafið verkefnið á Bakka, verkefnum sem voru á eftir Bakka í framkvæmdaröð. Alcoa hefur nýtt fjármuni annarstaðar sem annars hefðu verið nýttir á Íslandi.  Vegna aðgerða stjórnvalda sem vilja umfram allt ekki að álver á Bakka verði að veruleika.  

Framkvæmdir í Þingeyjarsýslum munu tefjast

Við sveitarfélögin í Þingeyjarsýslum reynum að aðlaga okkur að pólitískum veruleika og tökum þátt í því af fullum krafti að finna nýjan fjárfesti til að byggja upp á Bakka. Það mun hinsvegar taka tíma því jafnvel þótt áhugavert verkefni finnist þá á eftir að framkvæma umhverfismat og ótal önnur verkefni sem þegar hefur verið lokið við vegna álvers á Bakka. Þá er ekki auðhlaupið að finna fjárfesti sem hefur þann fjárhagslegan styrk sem nauðsynlegur er til að hægt sé að fjármagna virkjanir á svæðinu.  

Að lokum er vert að ítreka það að framkvæmdastopp í Þingeyjarsýslum hefur ekkert með Icesave að gera en allt með stjórnvöld.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband