Hversvegna seljum við sölu- og rafdreifikerfi Orkuveitu Húsavíkur

Félagsfundur í Vinstri grænna í Norðurþingi hefur mótmælt fyrirhugaðri sölu á sölu- og rafdreifihluta Orkuveitu Húsavíkur. Gott að vita það. Sami félagsskapur hefur fagnað úrskurði Þórunnar Sveinbjarnardóttur um sameiginlegt mat á framkvæmdinni á Bakka. Einnig því að ekki verði framlengd viljayfirlýsing við Alcoa um byggingu álvers á Bakka. Báðar þessar ákvarðanir hafa þó haft víðtæk áhrif á rekstrarstöðu og fjármögnunar möguleika Norðurþings og fyrirtækja þess.

Margir hafa gagnrýnt okkur fyrir að berjast svo hart gegn úrskurði Þórunnar um hið sameiginlega mat. Sagt að við værum flón að taka honum ekki fagnandi. Við erum hinsvegar nú að taka fjárhagslegum afleiðingum af þeim töfum sem þessi gjörningur hafði í för með sér. Sama má segja um þá ákvörðun að framlengja ekki viljayfirlýsingu við Alcoa um byggingu álvers á Bakka. Sú ákvörðun hefur að sjálfsögðu neikvæð áhrif á fjárhagsstöðu og fjármögnunarmöguleika Norðurþings. Meðan verkefnið var í öruggum þekktum farvegi með alvöru fjárfesti skapaði það traust á sveitarfélaginu. Ekkert hindraði orkufyrirtækin hinsvegar í því að kanna aðra áhugaverða kosti sem hugsanlega gæfust. En samráðsnefndin sem var skipuð til að kom málinu á hreyfingu, sem reyndar var stopp af pólitískum ástæðum, skapar ekki sama traust á ferlinum eins og viljayfirlýsing við Alcoa.

Heildarskuldir Orkuveitu Húsavíkur eru rúmlega 1.630 milljónir en þær hækkuðu verulega við hrun íslensku krónunnar. Skuldirnar stafa af því að Orkuveitan byggði fyrir nokkrum árum nýja orkustöð og lagði nýja aðveituæð frá Hveravöllum til Húsavíkur. Þá hefur Orkuveitan lagt fram hátt í milljarð í beinum fjármunum og ábyrgðum til Þeistareykja ehf til rannsókna á Þeistareykjum, að sjálfsögðu með bakábyrgð sveitarfélagsins. Orkuveita Húsavíkur fær með sölu sölu- og dreifikerfis 200 milljónir sem hún getur nýtt í afborganir og í framlagi til Þeistareykja ehf. 

Ekki er það auðvelt að selja frá sér rekstrarþætti eins og sölu- og dreifingu rafmagns. Ekki beint vinsælt í héraði og getur haft ýmsar pólitískar afleiðingar. En með þeim lögum sem samþykkt voru um aðskilnað sölu og dreifingar urðu starfskilyrði lítilla rafveita erfið. Framlegðin hefur verið lítil af rekstrinum undanfarin ár og samkeppnisstaðan í rafmagnssölu hefur farið versnandi. Erfitt er fyrir lítið fyrirtæki að verða við öllum þeim kröfum sem gerð eru til fyrirtækja í þessum geira. Það hefur því legið fyrir í nokkurn tíma að fyrirtækið yrði að losa sig úr þessari starfsemi og einbeita sér að rekstri á vatns- og hitaveitu. Verðið fyrir hlutinn er auðvitað ekki neitt 2007 verð en vel viðunandi miðað við framlegðina úr rekstrinum sérstaklega þar sem framlegðinni hefur verið haldið uppi með hærra verði til viðskiptavina en annarsstaðar gerist.

 

Ég vil með pistli þessum benda á þá staðreynd að allar þær hindranir sem settar hafa verið fyrir okkur við að nýta orkuna í Þingeyjarsýslum hafa raunveruleg áhrif á fjárhagslega stöðu Norðurþings. Þrátt fyrir að sala á sölu- og dreifikerfi Orkuveitu Húsavíkur gefi sveitarfélaginu svigrúm um sinn, saman reyndar með traustum rekstri aðalsjóðs sveitarfélagsin, þá er undir geta sveitarfélagsins til að verja eignarhluta sinn í Þeistareykjum ehf.. Tilgangur sveitarfélagsins með aðkomu að því félagi er að hafa áhrif á það í hvað orkulindir í Þingeyjarsýslum eru nýttar. Við vitum sem er verði þær ekki nýttar í Þingeyjarsýslum þá rennur frá okkur tækifæri til að snúa við þeirri hægfara hnignun sem ríkt hefur í alltof mörg ár. Tækifæri sem við munum trauðla fá aftur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband