Færsluflokkur: Bloggar

Við skulum draga vagninn ef við bara fáum frið til þess

Nú líður að því að rúmlega tveggja ára framkvæmdastoppi ljúki á háhitasvæðunum í Þingeyjarsýslum. En frá því að Þórunn Sveinbjarnadóttir setti framkvæmdir við álver á Bakka í sameiginlegt umhverfismat hefur sáralítið verið framkvæmt eða rannsakað á svæðunum. Gert er ráð fyrir að vinnu við sameiginlegt umhverfismat ljúki 25. nóvember. Skyndilega eru menn að átta sig á því að hægt er að hefjast handa. En samtals er talið að Þeistareykir, Krafla og Bjarnaflag geymi yfir 400 megavött af orku.

Næsta vaxtarsvæði verður klárlega í Þingeyjarsýslum. Við erum meira en til í að draga vagninn með því að nýta orku í Þingeyjarsýslum til uppbyggingar þar. Markmiðið er að fjölga vellaunuðum störfum þannig að ungt fólk geti haft lífsviðurværi fyrir sig og sína. Skapað verðmæti fyrir land og þjóð. Gott væri ef Álfheiður, Þórunn, Kolbrún, Mörður, Svandís og þeirra fylgjendur létu okkur bara í friði...

Við skulum draga vagninn.


Formleg opnun Hófaskarðsleiðar, ástæða til að fagna

Á morgun verður hátíð í Norður Þingeyjarsýslu en þá fer fram formleg opnun Hófaskarðsleiðar. En Hófaskarðsleið tengir saman Raufarhöfn, Kópasker og Þórshöfn með nýjum uppbyggðum heilsársvegi. Nýi vegurinn hefur í för með sér byltingu í samgöngum þessa svæðis og því full ástæða til að fagna.

Samgönguráðherra ásamt þingmönnum kjördæmisins verða viðstaddir vígsluna sem fram fer kl. 11:00 við áningastað í Hófaskarði. Kl. 12:30 verður boðið til kaffisamsætis í Félagsheimilinu Hnitbjörgum á Raufarhöfn í boði Norðurþings, Svalbarðshrepps, Langanesbyggðar og Vegagerðarinnar og eru íbúar svæðisins hvattir til að mæta og eiga ánægjulega stund saman.

Ég vill hvetja sem flesta að mæta á Raufarhöfn og samfagna íbúunum vegna þessa áfanga.


Bréf til oddvita Vinstri grænna í Norðurþingi

Kæri Trausti

Ég get líklega ekki sleppt því að senda þér nokkrar línur vegna greinar þinnar í síðasta Skarpi. Þú talar um tíu prósenta taprekstur Norðurþings. Þú veist væntanlega að af 318 milljóna tapi Norðurþings vegna ársins 2009 voru 200 milljónir vegna þess að orkustöð OH var afskrifuð um 200 milljónir. Hvers vegna ertu að láta líta út eins og sveitarfélagið sé með 10% rekstrarhalla. Þú veist að orkustöðin var byggð á valdatíma H-listans og því væntanlega á þína ábyrgð. Það hefði verið hugulsamt af þér að geta þess að tæp 70% af hallanum væri vegna afskriftar á orkustöðinni.

Trausti þú ýjar að því að að óeðlilegt sé að afborganir hækki. Trausti þú veist að samanlögð verðbólga síðustu 3 ára hefur verið um 33% það er því ekki nema eðlilegt að afborganir hækki. Kaldhæðnin er líka sú að stór hluti skuldanna er vegna framkvæmda við Bökugarð, sorpeyðingastöð og orkustöð OH. Allt framkvæmdir frá tíð H-listans sáluga. Þú veist að ef afborganir eru 410 milljónir og nýjar lántökur 330 milljónir þá er verið að borga niður skuldir en ekki taka lán til rekstrar. Þú veist að þú ert þarna að fara með rangt mál, ekki satt?

Ertu kannski virkilega að leggja til að borga niður skuldir um 400 milljónir mitt í efnahagshruninu? Þú talar um að minnka útgjöld Trausti. Hefur þú lesið stefnuskrá V-listans í Norðurþingi Trausti? Þú veist að þar er ekki ein tillaga um niðurskurð, ekki ein einasta. Hinsvegar er ansi margt sem á að efla. Ertu að segja fólki satt Trausti? Af hverju ertu að segjast ætla að minnka rekstrarkostnað en leggur það hvergi til? 

Trausti þú talar um að eiginfjárhlutfallið sé ekki nema 4,5%. Þú veist að sveitarfélagið á dulda eign í Þeistareykjum upp á 1,6-1,7 milljarð. Þú hlýtur einnig að átta þig á að fasteignir sveitarfélagsins hafa vegna verðbólgu rýrnað um 20 % umfram eðlilegar afskriftir. Eigið fé sveitarfélagsins er því í raun ekki 287 milljónir heldur liggur á bilinu 2-3 milljarðar. Þú veist þetta væntanlega Trausti?

 Þú segir meirihlutann fúlsa við öllum öðrum orkukaupendum en Alcoa væntanlega. Hvaða orkukaupenda höfum við fúlsað við? Hverjum kæri Trausti. Svarið er engum. Hér ert þú einfaldlega að segja ósatt. Félagar þínir hjá Vinstri grænum hafa fagnað öllum hindrunum sem settar hafa verið í veg okkar. Þið fögnuðu og studdu að álver á Bakka færi í sameiginlegt mat þrátt fyrir að inn í því væri einungis 4 af 8 framkvæmdum. Sameiginlega matið er því algjörlega tilgangslaust. Þrátt fyrir að við séum eina samfélagið sem hefur þurft að sæta þessum skilyrðum. Þá hafið þið hvergi mótmælt þessu, einungis fagnað. Jafnvel þó að úrskurðurinn hafi tafið umhverfismat á Þeistareykjum um tæplega tvö ár og haft með sér tugmilljóna kostnað fyrir Norðurþing. Með hverjum eruð þið í liði? 

Mig langar að leggja fyrir þig spurningu Trausti sem þú eflaust getur svarað. Hún er eftirfarandi. Var samið um það við stofnun núverandi ríkisstjórnar að álver á Bakka yrði slegið af? Ég veit að þið í Vinstri grænum mynduð að sjálfsögðu fagna því. Ég hef ekki getað skýrt afstöðu ríkisstjórnarinnar til verkefnisins á annan hátt. Hvers vegna verkefnið sem studdist við svo sterkan fjárfesti fékk ekki inni í stöðugleikasáttmálanum þrátt fyrir að bæði verkalýðshreyfingin og atvinnurekendur hafi stutt það. Hvers vegna fyrir það hafa verið lagðar nýjar og nýjar hindranir.

 

Málið er að þrátt fyrir efnahagshrun, pólitískt ofbeldi, og fólksfækkun stendur sveitarfélagið Norðurþing keikt, í raun efnahagslega sterkt með furðu öflugan rekstur. Sú staða  byggir á samhentum meirihluta, harðduglegum starfsmönnum og ótrúlegri seiglu okkar samfélags.

 Kv. Jón Helgi


Rammaáætlun á borði Vinstri grænna

Ég rak augun í það fyrir nokkrum dögum að rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúrusvæða með áherslu á vatnsafl og jarðhita væri föst á borði Vinstri grænna. Ég verð að segja eins og er að það kemur mér ekki á óvart, ekkert sem tengist virkjunarmálum virðist fá framgang hjá þessari ríkisstjórn. Á heimasíðu nefndar um rammaáætlun kemur fram að:  

"Verkefni  rammaáætlunar - að raða virkjunarkostum í forgangsröð - er á engan hátt einfalt viðfangsefni.  Mikilvægt er að tryggja traust og trúverðugleika matsins, faglega nálgun og þróa gegnsæja og hlutlæga aðferðafræði sem tryggir að ólíkir virkjunarkostir verði metnir á sömu forsendum."

 Haldinn var kynningarfundur um annan áfanga rammaáætlunarinnar í Mývatnssveit í mars. Þar kom fram að Bjarnaflagsvirkjun, Þeistareykjavirkjun og Kröfluvirkjun voru á meðal þeirra virkjunarkosta sem besta einkunn fengu. Þar kom einnig fram að Gjástykki var metið sem álitlegur kostur til virkjunar. Nákvæmlega eins og sveitarfélögin í Þingeyjarsýslu hafa metið þessi fjögur svæði. Það verður því fróðlegt að fylgjast með hvort stjórnvöld munu víkja frá þessu opna ferli og breyta leikreglunum eftir á. Ég óttast því miður að hætta sé á að sú verði raunin. Er það byggt á nokkuð langri reynslu.


Mótmælum samgönguáætlun með hálfan Dettifossveg

Eftirfarandi bókun var samþykkt í Byggðarráði Norðurþings í dag ásamt meðfylgjandi greinargerð:

"Byggðarráð Norðurþings skorar á samgönguyfirvöld að standa nú þegar við gefin fyrirheit um að klára Dettifossveg. En með Dettifossveg er átt við heilsársveg vestan Jökulsár á fjöllum sem tengja mun tengja saman Dettifoss og Ásbyrgi. Jafnframt harmar byggðarráðið að ekki sé gert ráð fyrir neðri hluta vegarins í núverandi samgönguáætlun þvert á loforð þar að lútandi.

Greinargerð

Ferðaþjónusta er mjög vaxandi atvinnugrein í Norðausturlandi. Nú er svo komið að möguleikar ferðaþjónustunnar til að vaxa takmarkast m.a. af því að gistirými á svæðinu er fullbókað á há annatíma. Þrátt fyrir þetta er nýtingarhlutfall yfir árið ekki nægilegt til að standa undir frekari uppbygginu eða til að tryggja arðbærann rekstur til þess er ferðamanna tíminn of skammur.

Dettifoss og Þjóðgarðurinn í Jökulsárgljúfrum eru eitt helsta aðdráttarafl fyrir ferðamann á svæðinu. Til útskýringar um mikilvægi þessara staða fyrir svæðið má helst líkja því við mikilvægi Gullfoss og Geysi fyrir ferðaþjónustu á Höfuðborgarsvæðinu. Ferðaþjónustu á Norðausturlandi er það jafn lífs nauðsynlegt og ferðaþjónustu á Höfuðborgarsvæðinu að hafa aðgang að mikilvægustu náttúruauðlindum meira en þrjá mánuði á ári.

Hringleið sem verður til við með heilsársvegi vestan Jökulsár á fjöllum er forsenda þess að svæðið geti farið að virka sem einheild og þar með nýta fjölbreyti svæðisins til að mynda "hringuð" sem megnar að hafa aðdráttarafl lengri tíma á ári.

Með tilkomu hringtenginu Dettifossvegar gjörbreytast forsendur ferðaþjónustu á jaðarsvæðunum í Öxarfirði og á Melrakkasléttu. Þar hefur skort rekstrargrundvöll til uppbyggingar innviða sem nauðsynlegir eru til að þess að nýta megi einstaka náttúru svæðisins til hagsbóta fyrir svæðin. Ef heilsársvegur að Dettifoss verður einungis tengdur hringveginum ofan frá er hætt við að þessi svæði verði enn einangraðri en áður.

Ein megin forsenda markaðssetningar á Akureyrarflugvelli fyrir millilandaflug er lenging ferðamanna tímans og öflugri afþreying á svæðinu. Hringtenging Dettifossvegar mun skipta verulegu máli til að efla afþreyingu á svæðinu og er ein skilvirkasta leiðin til að bæta nýtingu fjárfestinga í ferðaþjónustu sem fyrir eru á svæðinu."

Hér er um gríðarlegt hagsmunamál að ræða fyrir íbúa í Þingeyjarsýslum. Fyrir ferðaþjónustuna á svæðinu er grafalvarlegt að samgönguyfirvöld skuli einungis ætla að vega niður að Dettifossi en ekki þaðan niður í Kelduhverfið. Fyrir þjónustumiðstöðina í Ásbyrgi er þetta sömuleiðis afleitt. Ekkert samráð hefur verið haft við sveitarfélögin um þessar ráðagerðir. Með þessari ályktun mótmælum við harðlega þeirri stefnumótun sem á sér stað í nýrri samgönguáætlun varðandi Dettifossveg.

 

Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn verði sameinuð við Náttúrustofu Norðausturlands

Ég bloggaði fyrir stuttu um Vatnajökulsþjóðgarð og nauðsyn þess að færa stjórn hans heim í hérað. Hér er önnur bókun frá byggðaráði Norðurþings sem samþykkt var að mínu frumkvæði um tengt málefni ásamt greinargerð:

Byggðaráð Norðurþings leggur til við ríkisstjórnina að Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn verði sameinuð við Náttúrustofu Norðausturlands. Fyrir því eru nokkur afgerandi rök sem rakin eru í greinargerð með tillögunni.

Greinargerð byggðaráðs:

Í kvöldfréttum Stöðvar 2 þann 6. apríl var greint frá því að í umhverfisráðuneyti væri verið að ræða um mögulega sameiningu Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn (RAMÝ) við aðrar stofnanir. Í fréttinni var m.a. vitnað til ræðu Jóhönnu Sigurðardóttir, forsætisráðherra og formanns Samfylkingarinnar, sem hún hélt á fundi flokksstjórnar Samfylkingarinnar á Hótel Loftleiðum þann 27. mars sl. Þar ræddi hún m.a. um að fækka ríkisstofnunum um 30 – 40% á næstu 2 – 3 árum. Tekið var fram að ekkert væri þó búið að ákveða í þessum efnum.

RAMÝ er ein örfárra opinberra stofnana sem starfsemi hafa í Mývatnssveit. Stofnunin er rótgróin og nær starfsemi hennar í sveitinni aftur til ársins 1975. Starfsemin skiptir Skútustaðahrepp miklu máli og því er mikilvægt að hugmyndir um sameiningar séu ræddar í samráði við sveitarfélagið.

Sé það einlægur vilji ríkisvaldsins að sameina RAMÝ annarri eða öðrum sambærilegum stofnunum væri eðlilegast að horft væri til stofnana innan héraðs í stað stofnana með höfuðstöðvar og yfirstjórn annars staðar. Náttúrustofa Norðausturlands (NNA) er rekin sameiginlega af Skútustaðahreppi og Norðurþingi með stuðningi ríkisins og væri eðlilegast að líta til hennar þegar skoðaðir eru möguleikar á sameiningu RAMÝ við sambærilegar stofnanir. Fyrir auknu samstarfi eða samruna RAMÝ og NNA eru fjölmörg rök, s.s:

1. Mikilvægt er að stjórn og ákvörðunarvald stofnana sem starfræktar eru á jafn afmörkuðu svæði og við Mývatn og Laxá sé í héraði. Boðleiðir eru stuttar, stjórnun skilvirk og gott innsæi í staðbundnar aðstæður, bæði hvað varðar náttúru og samfélag. Aukin samvinna eða samruni stofnana innan héraðs er því æskilegust áður en horft er annað.

2.Hlutverk stofnananna eru að grunni til þau sömu. Hlutverk RAMÝ skv. lögum nr. 97/2004 er að stunda rannsóknir á náttúru og lífríki Mývatns og Laxár. Það fellur vel að hlutverki NNA sem er skv. lögum nr. 92/2002 m.a. að safna gögnum, varðveita heimildir um náttúrufar og stunda vísindalegar náttúrurannsóknir, einkum í þeim landshluta þar sem náttúrustofan starfar. Frekari hlutverk RAMÝ hafa ekki verið skilgreind með reglugerð eins og til stóð er ný lög tóku gildi um vernd Mývatns og Laxár árið 2004.

3.Starfssvæði RAMÝ fellur innan starfssvæðis NNA, sem nær frá Ólafsfirði í vestri, austur á Langanes.

4.Sérfræðiþekking innan stofnananna er að stórum hluta til sú sama; fuglavistfræði, vatnalíffræði og náttúruvernd. Innan raða NNA er mikil reynsla af Mývatnsrannsóknum meðal starfsmanna sem starfað hafa hjá RAMÝ til fjölda ára. Mikil samlegð og aukið hagræði fælist því í samnýtingu starfsfólks.

5.Sérhæfing stofnananna er sú sama. Rannsóknir á fuglum og vatnalífi auk náttúruverndar hafa verið einkennandi í starfsemi RAMÝ allt frá upphafi. Þetta eru einnig þau þrjú svið sem NNA hefur sérhæft sig á.

6.NNA sinnir fuglavöktun í Þingeyjarsýslum utan Mývatnssveitar á sambærilegan hátt og RAMÝ gerir í Mývatnssveit og með Laxá skv. sérstökum samningi við umhverfisráðuneytið.

7. Þarfir vegna rannsókna (tækjabúnaður, hugbúnaður o.fl.) eru svipaðar vegna sambærilegrar starfsemi. Sama á við um ýmsan annan kostnað sem báðar stofnanir þurfa að greiða í dag. Mikil hagræðing gæti falist í að samnýta aðstöðu og ýmsa aðra þjónustu með frekari hætti.

Það er lagalega tæknilegt úrlausnarefni hvernig mögulegum samruna NNA og RAMÝ yrði háttað. Líklega er það þó tiltölulega einfalt. Vegna víðtækari skírskotunar í lögum um starfsemi náttúrustofa væri rétt að miða við að NNA tæki við hlutverkum RAMÝ. Líklega þarf engu að breyta í lögum um starfsemi NNA þar sem starfsemi RAMÝ rúmast innan þeirra laga. Mögulega væri hægt að fella starfsemi RAMÝ undir starfsemi NNA með sérstökum samningi á milli NNA og umhverfisráðherra. Lögum um vernd Mývatns og Laxár þyrfti þó líklega að breyta að því leyti sem snýr að starfsemi RAMÝ.

Frá því NNA var komið á fót hefur tekist að byggja upp öfluga rannsóknastofnun með aðsetur á Húsavík. Mikil gróska hefur verið í starfseminni og þar starfa nú 5 manns á heilsársgrundvelli. Víðtækt hlutverk NNA og einfalt stjórnskipulag í héraði hefur veitt mikinn sveigjanleika í starfseminni. Sá sveigjanleiki hefur skilað miklu í þeirri grósku sem orðið hefur. Með samruna NNA og RAMÝ með þeim hætti sem lýst hefur verið hér að framan yrði til mjög öflug rannsóknastofnun í Þingeyjarsýslum með aðsetur á Húsavík og í Mývatnssveit. Samruninn myndi falla vel að markmiðum ríkisstjórnarinnar um aukna hagræðingu og einföldun á stofnanakerfinu. Starfsmenn yrðu a.m.k. 7 talsins miðað við núverandi starfsemi. Hagræðing vegna samrunans og meiri slagkraftur innan regluverks náttúrustofanna gæti leitt til fleiri starfa í framtíðinni.


Framkvæmdastjórn Vatnajökulsþjóðgarðs verði flutt heim í hérað

Eftirfarandi bókun var samþykkt í byggðaráði Norðurþings á fimmtudaginn ásamt greinargerð:

Byggðaráð Norðurþings leggur til við umhverfisráðherra að stjórn og framkvæmdastjórn Vatnajökulsþjóðgarðs verði lögð niður. Eðlilegt er að framkvæmdastjórn Þjóðgarðsins verði flutt heim í héruð og svæðisráðunum verði falin stjórnun þjóðgarðsins. Svæðisráð myndu semja við fagaðila í héraði um framkvæmdastjórn viðkomandi rekstrarsvæðis. Þannig verði allt framkvæmdavald og fjárráð á viðkomandi rekstrarsvæðis í héraði.

Stjórn og starfsemi Vatnajökulsþjóðgarðs - greinargerð

Í aðdraganda að stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs voru haldnir kynningar- og samráðsfundir á starfssvæðum þjóðgarðsins m.a. í Þingeyjarsýslum. Á þessum fundum kom m.a. fram vilji til þess að auka þátt heimamanna við stjórnun þjóðgarðsins. Einnig var lögð mikil áhersla á þá atvinnusköpun sem fylgdi starfsemi þjóðgarðsins á svæðinu, sbr. markmið í reglugerð. Meðal Þingeyinga byggðust þarna upp vonir um ný vinnubrögð og stjórn náttúruverndarmála á svæðinu og að með friðlýsingu Vatnajökulsþjóðgarðs myndu skapast aukin tækifæri í atvinnulegu tilliti, bæði bein störf og afleidd þjónusta og ráðgjöf.

Vatnajökulsþjóðgarður var svo stofnaður með lögum nr. 60 þann 28. mars árið 2007. Í reglugerð nr. 608/2008 um Vatnajökulsþjóðgarð var kveðið sérstaklega á um að markmið friðlýsingar væri til þess fallið að styrkja byggð og atvinnustarfsemi í nágrenni þjóðgarðsins. Bæri því enn fremur að líta á Vatnajökulsþjóðgarð sem mikilvæga aðgerð til eflingar byggðar á svæðinu.

Stjórnun þjóðgarðsins og aðkoma heimamanna

Stjórnskipulag þjóðgarðsins var í lögunum ákveðið þannig að hann er ríkisstofnun og fer umhverfisráðherra með yfirstjórn mála er varða þjóðgarðinn. Með stjórn stofnunarinnar og umsjón með rekstri þjóðgarðsins fer sérstök stjórn skipuð af umhverfisráðherra. Hún er skipuð fjórum fulltrúum svæðisráða, sem talist geta fulltrúar heimamanna, auk þriggja annarra. Þjóðgarðinum er skipt upp í fjögur rekstrarsvæði sem rekin eru sem sjálfstæðar rekstrareiningar á ábyrgð þjóðgarðsvarða. Á hverju rekstrarsvæði starfar svæðisráð skipað af umhverfisráðherra til fjögurra ára í senn. Í hverju svæðisráði eiga sæti þrír fulltrúar sveitarfélaga á viðkomandi rekstrarsvæði og einn fulltrúi svæðisbundinna ferðamálasamtaka sem teljast vera fulltrúar heimamanna. Alls sitja sex fulltrúar í hverju svæðisráði. Þá er þjóðgarðsvörður á hverju rekstrarsvæði sem annast á daglegan rekstur og stjórn viðkomandi rekstrarsvæðis í umboði stjórnar.

Reynslan af stjórn þjóðgarðsins

Þrátt fyrir viðleitni stjórnvalda til að auka þátttöku heimamanna í stjórnskipulagi Vatnajökulsþjóðgarðs hefur reynsla af stjórnsýslu hans valdið vonbrigðum. Stjórnsýslan er flókin og mjög lagskipt, sem gerir það að verkum að boðleiðir verða langar frá æðstu stjórn til þeirra er framfylgja ákvörðum hennar. Svæðisráðin, sem endurspegla áttu svæðisbundnar áherslur og aðstæður, hafa lítil völd og eru einungis ráðgefandi gagnvart stjórn þjóðgarðsins. Svo þung stjórnsýsla er mjög óhagkvæm, bæði í framkvæmd og fjárhagslega. Ekki bætir úr að mál skuli hafa æxlast þannig að framkvæmdastjórn og aðalskrifstofa sé staðsett í hjarta Reykjavíkur. Þetta veldur því að framkvæmdastjórnin er fjarlæg og endurspeglar ekki svæðisbundna hagsmuni og aðstæður t.d. á norðursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs. Afleiðingarnar felast m.a. í brostnum væntingum til þeirrar atvinnulegu uppbyggingar sem boðuð var með stofnun þjóðgarðsins. Á það bæði við um stjórnun og faglega vinnu Vatnajökulsþjóðgarðs sjálfs, sem og afleidda atvinnustarfsemi í heimahéraði af uppbyggingu þjóðgarðsins.

 

Framtíð þjóðgarðsins

Þegar tiltrú heimamanna á gagnsemi Vatnajökulsþjóðgarðs er ekki lengur fyrir hendi má velta fyrir sér tilgangi hans. Þjóðgarðurinn mun aldrei þrífast og dafna í nábýli við þá sem ekki kunna að meta tilveru hans. Sé það vilji stjórnvalda að efna þau fögru fyrirheit sem lögð voru til grundvallar við stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs, styrkja hann og efla til framtíðar, þarf að endurskoða stjórnskipulag og starfsemi þjóðgarðsins. Taka þarf mið af þeirri reynslu sem nú er til staðar af stjórnkerfi og starfsemi þjóðgarðsins.

Stjórnskipulag Vatnajökulsþjóðgarðs þarf að endurskoða og einfalda til að tryggja betur framtíð hans, svæðisbundna hagsmuni og samskipti við heimaaðila á starfssvæði þjóðgarðsins. Stjórn og framkvæmdastjórn þjóðgarðsins þarf að færa í auknum mæli heim í hérað á viðkomandi rekstrarsvæðum. Rekstrarsvæðin verði sjálfsstæðari og svæðisráð fái aukin völd. Framkvæmdastjóri og aðalskrifstofa í Reykjavík yrðu aflögð enda er gert ráð fyrir því í lögum að stjórn þjóðgarðsins sé heimilt að gera samning við aðra opinbera stofnun eða fyrirtæki um að annast daglegan rekstur og umsýslu stjórnar. Stjórn og svæðisráð myndu semja við fagaðila í héraði um framkvæmdastjórn viðkomandi rekstrarsvæðis. Þannig verði allt framkvæmdavald og fjárráð á viðkomandi rekstrarsvæðis í héraði. Með þessu fyrirkomulagi styttast boðleiðir og stjórnkerfið yrði allt skilvirkara og í nánum tengslum við umhverfi sitt.

 


Orkan frá Þeistareykjum komist í kerfið sem fyrst

Eftirfarandi er haft eftir iðnaðarráðherra á vísi í morgun;

"Við erum að vinna mjög markvisst að því að orkan, sem blæs upp á Þeistareykjum, komist í kerfið sem allra, allra fyrst. Menn gleyma því oft þegar þeir eru að leggja mat á það sem leiðir af stóriðjunni og hafa skilið það svæði eftir. Það er alveg ljóst að stjórnvöld leggja mikla áherslu á það svæði. Þar verður mjög stórt orkuöflunar- og atvinnuuppbyggingarsvæði á næstunni."

 Ég hef það fyrir satt að meining þess sem ráðherrann hafi viljað segja hafi ekki komið skýrt fram í þessari tilvitnun. Enda væri það ekki í samræmi við málflutning ráðherrans ef til stæði að virkja Þeistareyki til að setja orkuna inn á kerfið. Áhersla heimamanna í Þingeyjarsýslum er að Þeistareykir verði virkjaðir til að byggja upp atvinnu- og umsvif á svæðinu og um það hafa þeir samkomulag við ríkisstjórnina.

Rétt er það hinsvegar orkan í Þingeyjarsýslum mun skipta miklu við að byggja upp atvinnu- og verðmætasköpun á landinu. Orkan þar verður hinsvegar ekki nýtt með góðu móti nema í góðu samkomulagi við heimamenn. Og um ekkert annað verður samkomulag um en að hún verði nýtt í Þingeyjarsýslum.


Að smala köttum

Það er nokkur nýmæli að Jóhanna skuli líkja þingmönnum samstarfsflokksins við ketti. Það getur varla verið mikill vilji til að halda þessu samstarfi áfram þegar gripið er til samlíkinga sem þessara. Ekki það að samlíkingin lýsir ástandinu á stjórninni býsna vel.

Þá hef ég miklar efasemdir um að rétt sé við þessar aðstæður að hræra mikið í skipulagi stjórnsýslunar. Mikilvægar er að ná tökum á útgjöldum ríkisins og liðka fyrir fjárfestingum í atvinnulífinu. Frekar en að lama stjórnkerfið í einhverjum breytingum sem eru lítt hugsaðar eða undirbúnar.


Framkvæmdastopp í Þingeyjarsýslum hefur ekkert með Icesave að gera

Mánudaginn 8. mars birtist þessi grein eftir mig í Morgunblaðinu. 

Undanfarna daga hafa margir látið í ljós áhyggjur af því að Icesave málið hafi þau áhrif að uppbygging stóriðju stöðvist. Icesave hefur ekki haft teljandi áhrif á uppbyggingu stóriðju á Bakka. Stjórnvöld haft hinsvegar haft mikil áhrif. 

Úrskurður um sameiginlegt mat

Þegar Þórunn Sveinbjarnardóttir snéri við úrskurði Skipulagsstofnunar og setti fjögur verkefni við álver á Bakka í sameiginlegt umhverfismat sumarið 2008 varð stóriðjustopp í Þingeyjarsýslum. Umhverfismat fyrir Þeistareykjavirkjun var komið vel á veg en stefnt var á að því lyki í febrúar 2009. Markmiðið með þessari tímasetningu matsins var að  framkvæma tilraunaboranir sumarið 2009 til að sannreyna orkumagn á svæðinu. Staðan nú er sú að umhverfismatinu hefur þegar seinkað um ár og miklar líkur eru á að því ljúki ekki fyrr en í haustmánuðum. Ákvörðunin hefur þannig þegar seinkað öllum framkvæmdum á Þeistareykjum um ár en mun líklega seinka þeim um tvö ár.

Kostnaðurinn fyrir Þeistareyki ehf hleypur á tugum milljóna bara fyrir vinnuna í kringum hið sameiginlega umhverfismat. Enginn sem vinnur þessa vinnu telur að sameiginlega matið muni bæta nokkru við mat á umhverfisáhrifa framkvæmdanna heldur sé fyrst og fremst um tæknilega hindrun á verkefninu að ræða. Megin kostnaðurinn við ákvörðunina liggur þó í töfinni sem þetta hefur í för með sér. En tveggja ára töf á framkvæmdum kostar Þeistareyki ehf á milli 200-300 milljónir.  

Viljayfirlýsing ekki framlengd 

Þrátt fyrir skýran vilja meirihluta sveitarstjórna í Norðurþingi um að framlengja viljayfirlýsingu við Alcoa um byggingu álvers á Bakka hafnaði ríkisstjórnin því. Þetta gerði ríkisstjórnin þrátt fyrir að ríkið, Norðurþing og Alcoa hafi unnið í tæplega 4 ár að verkefninu. Þrátt fyrir að heimamenn litu á verkefnið sem góða leið til að setja varanlega trausta stoð undir atvinnulíf svæðisins. Heimamenn samþykktu að lokum að setja málið í annan farveg. Skrifuðu upp á yfirlýsingu um að orkan yrði notuð í Þingeyjarsýslu og stofnaður yrði sérstakur vinnuhópur sem finna ætti orkukaupenda. Markmið þeirrar vinnu sem hófst í kjölfar undirritunarinnar var að skapa þær aðstæður að 1. október 2010 verði allri nauðsynlegri forvinnu lokið þannig að unnt verði að ganga til samninga við stóran orkukaupanda / orkukaupendur um uppbyggingu orkufreks iðnaðar í Þingeyjarsýslum. 

Fulltrúar Norðurþings komu því skýrt til skila fyrir undirritun þessa samkomulags að þeir litu á Alcoa sem einn af þeim aðilum sem sterkast kæmi til greina að semja við. Enda má búast við að umhverfismati álvers á Bakka verði lokið í sumar eða haust og þá ekkert að vanbúnaði að hefjast handa.   

Vandamálið er viðhorf ríkisstjórnarinnar

Vandamálið er hinsvegar að ríkisstjórnin hefur engan áhuga á verkefninu á Bakka og að sjálfsögðu gerir fjárfestirinn sér grein fyrir því. Slit á fjögurra ára samstarfi, álagning nýrra skatta, ýmis ummæli ráðherra og ekki síst algjört áhugaleysi ríkistjórnar á verkefninu hrekur fjárfestinn á brott. Þá veit Alcoa fullvel að forsvarsmenn Norðurþings reyndu ítrekað að koma verkefninu á Bakka inn í stöðuleika sáttmála ríkisins og aðila vinnumarkaðarins án árangurs. Það var okkur reyndar hulin ráðgáta hversvegna verkefnið á Bakka fékk ekki stuðning meðan bæði stækkun Straumsvíkur og Helguvík fengu inni. Sérstaklega þegar litið er til þess að fjárhagslegur styrkur Alcoa gæti auðveldað fjármögnun virkjanna en fjármögnun er einmitt megin vandamál framkvæmda í dag. 

Vitað er að Alcoa hefur fjárfest í öðrum verkefnum meðan stjórnvöld hafa tafið verkefnið á Bakka, verkefnum sem voru á eftir Bakka í framkvæmdaröð. Alcoa hefur nýtt fjármuni annarstaðar sem annars hefðu verið nýttir á Íslandi.  Vegna aðgerða stjórnvalda sem vilja umfram allt ekki að álver á Bakka verði að veruleika.  

Framkvæmdir í Þingeyjarsýslum munu tefjast

Við sveitarfélögin í Þingeyjarsýslum reynum að aðlaga okkur að pólitískum veruleika og tökum þátt í því af fullum krafti að finna nýjan fjárfesti til að byggja upp á Bakka. Það mun hinsvegar taka tíma því jafnvel þótt áhugavert verkefni finnist þá á eftir að framkvæma umhverfismat og ótal önnur verkefni sem þegar hefur verið lokið við vegna álvers á Bakka. Þá er ekki auðhlaupið að finna fjárfesti sem hefur þann fjárhagslegan styrk sem nauðsynlegur er til að hægt sé að fjármagna virkjanir á svæðinu.  

Að lokum er vert að ítreka það að framkvæmdastopp í Þingeyjarsýslum hefur ekkert með Icesave að gera en allt með stjórnvöld.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband