Seint í rassinn gripið

Stjórnarþingmenn og forsætisráðherra hafa undanfarna daga tjáð sig um fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækja. Virðast hafa vaknað upp við þann vondan draum að helstu leikendur í útrásinni eru að hirða aftur þau fyrirtæki sem þeir keyrðu í þrot. Er þetta gert með tilheyrandi afskriftum skulda.

Skýrasta dæmið voru afskriftir Arion banka á skuldum Samskipa. Svo virðist sem eigandi Samskipa hafi fengið lán hjá Kaupþingi þar sem hann var lykileigandi án haldbærra veða. Hinsvegar hafi eigandinn einnig fengið lán frá erlendum banka en fært þeim banka góð veð. Þegar Kaupþing er komið í þrot og Samskip í skuldavanda fer hinn fyrrum eigandi Kaupþing til hins erlenda banka. Semur við hann um að knýja Arion áður Kaupþing til verulegra afskrifta í krafti þess að hann hafi fært hinum erlenda banka góð veð en fengið lán hjá Kaupþing sem hann átti verulegan hlut í án veða. Eigandinn er þannig í lykilstöðu til þess að eignast ráðandi stöðu í félaginu eftir hrun, stöðu sem byggðist á eign hans í hinum fallna banka. Enginn annar er í þeirri stöðu.

Ríkisstjórnarmeirihlutinn stendur álengdar aðgerðarlaus. Skilur ekki hversvegna traustið til þeirra hverfur hratt á hverjum einasta degi. Allir sjá að stjórnin virðist ekki hafa markað sér neina haldbæra stefnu við fjárhagslega endurreisn lykil fyrirtækja. Gelt án aðgerða er til lítils.


Úrskurður umhverfisráðherra um suðvesturlínur staðfestir það órétti sem Þingeyingar eru beittir

Umhverfisráðherra hefur nýlega úrskurðað að suðvesturlínur eigi ekki að fara í sameiginlegt umhverfismat. Ég hnaut um þessa setningu í rökstuðningi ráðuneytisins;

"Er það mat ráðuneytisins að lögin geri einungis ráð fyrir að slíkt mat fari fram einu sinni. Þar sem umhverfismat viðkomandi framkvæmda er ýmist afgreitt eða á lokastigum sé réttmætt að framkvæmdaaðilar geti þess að umhverfismat haldi áfram í sama farvegi og þegar hefur verið markaður." 

Þetta var nákvæmlega staðan sem var uppi varðandi umhverfismat á Þeistareykjum þegar Þórunn Sveinbjarnardóttir snéri við úrskurði Skipulagsstofnunar og setti framkvæmdina á Bakka í sameiginlegt umhverfismat sumarið 2008. Umhverfismat fyrir Þeistareykjavirkjun var komið vel á veg en stefnt var á að því lyki í febrúar 2009. Markmiðið með þessari tímasetningu matsins var að mögulegt væri að framkvæma tilraunaboranir sumarið 2009. Staðan nú er sú að umhverfismatinu hefur þegar seinkað um ár og miklar líkur eru á að því ljúki ekki fyrr en í haustmánuðum. Ákvörðunin hefur þannig þegar seinkað öllum framkvæmdum á Þeistareykjum um ár en mun líklega seinka þeim um tvö ár.

Kostnaðurinn fyrir Þeistareyki ehf hleypur á tugum milljóna bara fyrir vinnuna í kringum hið sameiginlega umhverfismat. Enginn sem vinnur þessa vinnu telur að sameiginlega matið muni bæta nokkru við mat á umhverfisáhrifa framkvæmdanna heldur sé fyrst og fremst um tæknilega hindrun á verkefninu að ræða. Megin kostnaðurinn við ákvörðunina liggur þó í töfinni sem þetta hefur í för með sér fyrir félagið. En tveggja ára töf á framkvæmdum kostar félagið á milli 200-300 milljónir.

Eflaust finnst einhverjum þetta ekki miklir peningar í orkuiðnaði en það er þó ekki þannig farið með eigendur Þeistareykja ehf. Tafir þessar hafa haft mikil áhrif á eigendur félagsins en þrjú sveitarfélög áttu meirihluta í félaginu. Þannig hefur Norðurorka þegar ákveðið að selja sinn hlut í félaginu til Landsvirkjunar, væntanlega hafa þeir Akureyringar ekki séð sér fært að leggja félaginu til 60-70 milljónir á hverju ári meðan beðið er eftir að tæknilegar hindranir stjórnvalda væru yfirstignar.  

Hvernig er þá stað Norðurþings? Hún er auðvitað ekki sérlega sterk. Sveitarfélagið er skuldsett og á ekki gott með að leggja félaginu til 70 milljónir á hverju ári sem drottinn gefur. Sérstaklega ekki eftir að ríkisstjórnin ákvað að framlengja ekki viljayfirlýsingu við Alcoa um byggingu álvers á Bakka. Sú ákvörðun hafði verulega neikvæð áhrif á möguleika sveitarfélagsins til að fjármagna sig. Auðvitað er mun auðveldara að fjármagna orkuframkvæmdir þegar orkukaupandinn er í hendi. Hinsvegar þegar aðilar eru komnir í einhverja skógarferð með ríkisstjórninni í leit að orkukaupendum þ.e. einhverjum öðrum en Alcoa þá vandast málið við fjármögnun.

Væntanlega verður sú ákvörðun ekki umflúin fyrir Norðurþing að selja frá sér hlut sinn í Þeistareykjum ehf, spurningin er meira hverjum og á hvaða forsendum. Fyrir sveitarfélagið er það bagaleg staða því tilgangurinn með þátttöku í félaginu var ekki fyrst og fremst að hagnast á því heldur miklu fremur að sjá til að orkan yrði nýtt á heimaslóð og það sem fyrst. En tæknilegar hindranir stjórnvalda setja sveitarfélagið í stöðu sem það hefur ekki efnahagslega burði til að verjast. Tæknilegar hindranir sem íbúum og fyrirtækjum utan Þingeyjarsýslna er ekki gert að sæta.

Þingeyingar eru beittir órétti. Verða augljóslega að hugsa upp á nýtt hvernig þeir verja hagsmuni sína.


Samningur sem þarf að fella

Gott hjá forsetanum að senda lögin um Icesave í þjóðaratkvæði. Ég hef áður lýst þeirri skoðun minni að þeim beri að hafna. Einfaldlega vegna þess að samningurinn um Icesave er ósanngjarn og skýrt vitni um linku núverandi vinstristjórnar. Það hefur allan tíman legið fyrir að þrá Samfylkingarinnar eftir inngöngu í Evrópusambandið hefur tekið úr þeim allan þrótt til samninga.

Verð að viðurkenna að ég horfði á það með furðu hvernig stjórnarliðar hver á eftir öðrum misstu vitið nokkra daga eftir að forsetinn ritaði ekki undir lögin. Fullyrðingar um að kosið yrði milli forseta og ríkisstjórnar voru fáránlegar.

Umræðan erlendis sýnir að staða okkar til samninga hefur verið sterkari en samningarnir endurspegla. Ég skil ekki hvað stjórnarliðum gengur til að ráðast að þeim sem hafa rétt okkur hjálparhönd í umræðunni. Reyndar skil ég það ágætlega þeir eru að reyna að draga athyglina frá því risa klúðri sem málið hefur orðið í höndunum á þeim. Þannig að nú er ekki annað til ráða en að fella samninginn í þjóðaratkvæðagreiðslu.


Spuni, meiri spuni

Reykjavíkurbréfið fjallaði um spuna. Hvernig með því að endurtaka sama hlutinn nógu oft sé hægt að búa til nýjan sannleika. Dæmi um slíkan spuna má sjá í grein Dofra Hermannssonar þegar hann ýjar að því í Morgunblaðsgrein að ástæða fyrir stoppi í Þingeyjarsýslum sé að Alcoa sé og hafi ekki verið sú alvara með verkefninu á Bakka sem menn hugðu. Staðreyndin er hinsvegar sú að verkefnið er stopp útaf stjórnsýslu ákvörðun umhverfisráðherra Samfylkingarinnar.  Sú ákvörðun veldur því að ekki er hægt að semja um orkusölu í Þingeyjarsýslum.

 Enn forystumenn Samfylkingarinnar hafa ákveðið að snúa sig útúr þessum vanda með því að klifa sífellt á því að Alcoa dragi lappirnar, sé ekki alvara o.s.frv. Tilgangurinn með þessum skrifum er að búa til nýjan sannleika sem hentar pólitískum hagsmunum flokksins. Ég bloggaði um þetta fyrir nákvæmlega mánuði.  Staðreyndin er hinsvegar sú að hefði verið unnið að fullum heilindum með Alcoa að verkefninu á Bakka væri það komið á framkvæmdastig.

 Þá er ný viljayfirlýsing milli sveitarfélaga í Þingeyjarsýslum og ríkisins túlkuð eins og fyrst núna hafi menn fengið þá hugmynd að ræða við aðra orkukaupendur. Það er ekki raunin,  enda hefur ekki verið í gildi viljayfirlýsing milli orkuframleiðslufyrirtækjanna við Alcoa í meira en ár. Að sjálfsögðu hafa fyrirtækin kannað aðra möguleika til orkusölu, reyndar án þess að finna áhugasama kaupendur.


ICESAVE enn og aftur

Alltaf verður augljósara að hafna beri ICESAVE samningnum. Allt frá því að gengið var frá samningnum í vor þá hefur tenging hans við umsókn um inngöngu í ESB verið augljós. Virðist vera sem megin ástæða fyrir slökum samningi hafi verið löngun Samfylkingarinnar til að koma umsókn um inngöngu í ESB inn á borð ráðherraráðsins í júlí. Klára varð því samninga um ICESAVE með hraði með þekktum afleiðingum.

Öll þvingunin í kringum samninginn og algjört getuleysi ríkisstjórnarinnar við að halda frami málstað okkar sker í augu. Draumurinn um inngöngu í ESB kemur í veg fyrir að hægt sé að mæta málinu af hörku. Fyrir þá sem hafa verið þeirrar skoðunar að skynsamlegt sé að kanna kosti inngöngu í Evrópusambandið þá er allur ferill málsins hörmulegur. Vegna frammistöðu stjórnarinnar er málstaður þeirra sem telja að aðild að Evrópusambandinu sé ein forsendan fyrir efnahagslegri endurreisn að fara í vaskinn.

Það er allt að því spaugilegt að lesa fréttir í dag sem flytja okkur þær ekki fréttir að Hollendingar ætli ekki að segja upp samningnum. Hverjum datt það í hug að Hollendingar segi upp samningnum áður en fullreynt er að hann verði samþykktur. Hagsmunir þeirra af því að við tökum á okkur skuldbindingar Landsbankans eru miklu meiri en svo að þeim detti það í hug.

 


Hversvegna seljum við sölu- og rafdreifikerfi Orkuveitu Húsavíkur

Félagsfundur í Vinstri grænna í Norðurþingi hefur mótmælt fyrirhugaðri sölu á sölu- og rafdreifihluta Orkuveitu Húsavíkur. Gott að vita það. Sami félagsskapur hefur fagnað úrskurði Þórunnar Sveinbjarnardóttur um sameiginlegt mat á framkvæmdinni á Bakka. Einnig því að ekki verði framlengd viljayfirlýsing við Alcoa um byggingu álvers á Bakka. Báðar þessar ákvarðanir hafa þó haft víðtæk áhrif á rekstrarstöðu og fjármögnunar möguleika Norðurþings og fyrirtækja þess.

Margir hafa gagnrýnt okkur fyrir að berjast svo hart gegn úrskurði Þórunnar um hið sameiginlega mat. Sagt að við værum flón að taka honum ekki fagnandi. Við erum hinsvegar nú að taka fjárhagslegum afleiðingum af þeim töfum sem þessi gjörningur hafði í för með sér. Sama má segja um þá ákvörðun að framlengja ekki viljayfirlýsingu við Alcoa um byggingu álvers á Bakka. Sú ákvörðun hefur að sjálfsögðu neikvæð áhrif á fjárhagsstöðu og fjármögnunarmöguleika Norðurþings. Meðan verkefnið var í öruggum þekktum farvegi með alvöru fjárfesti skapaði það traust á sveitarfélaginu. Ekkert hindraði orkufyrirtækin hinsvegar í því að kanna aðra áhugaverða kosti sem hugsanlega gæfust. En samráðsnefndin sem var skipuð til að kom málinu á hreyfingu, sem reyndar var stopp af pólitískum ástæðum, skapar ekki sama traust á ferlinum eins og viljayfirlýsing við Alcoa.

Heildarskuldir Orkuveitu Húsavíkur eru rúmlega 1.630 milljónir en þær hækkuðu verulega við hrun íslensku krónunnar. Skuldirnar stafa af því að Orkuveitan byggði fyrir nokkrum árum nýja orkustöð og lagði nýja aðveituæð frá Hveravöllum til Húsavíkur. Þá hefur Orkuveitan lagt fram hátt í milljarð í beinum fjármunum og ábyrgðum til Þeistareykja ehf til rannsókna á Þeistareykjum, að sjálfsögðu með bakábyrgð sveitarfélagsins. Orkuveita Húsavíkur fær með sölu sölu- og dreifikerfis 200 milljónir sem hún getur nýtt í afborganir og í framlagi til Þeistareykja ehf. 

Ekki er það auðvelt að selja frá sér rekstrarþætti eins og sölu- og dreifingu rafmagns. Ekki beint vinsælt í héraði og getur haft ýmsar pólitískar afleiðingar. En með þeim lögum sem samþykkt voru um aðskilnað sölu og dreifingar urðu starfskilyrði lítilla rafveita erfið. Framlegðin hefur verið lítil af rekstrinum undanfarin ár og samkeppnisstaðan í rafmagnssölu hefur farið versnandi. Erfitt er fyrir lítið fyrirtæki að verða við öllum þeim kröfum sem gerð eru til fyrirtækja í þessum geira. Það hefur því legið fyrir í nokkurn tíma að fyrirtækið yrði að losa sig úr þessari starfsemi og einbeita sér að rekstri á vatns- og hitaveitu. Verðið fyrir hlutinn er auðvitað ekki neitt 2007 verð en vel viðunandi miðað við framlegðina úr rekstrinum sérstaklega þar sem framlegðinni hefur verið haldið uppi með hærra verði til viðskiptavina en annarsstaðar gerist.

 

Ég vil með pistli þessum benda á þá staðreynd að allar þær hindranir sem settar hafa verið fyrir okkur við að nýta orkuna í Þingeyjarsýslum hafa raunveruleg áhrif á fjárhagslega stöðu Norðurþings. Þrátt fyrir að sala á sölu- og dreifikerfi Orkuveitu Húsavíkur gefi sveitarfélaginu svigrúm um sinn, saman reyndar með traustum rekstri aðalsjóðs sveitarfélagsin, þá er undir geta sveitarfélagsins til að verja eignarhluta sinn í Þeistareykjum ehf.. Tilgangur sveitarfélagsins með aðkomu að því félagi er að hafa áhrif á það í hvað orkulindir í Þingeyjarsýslum eru nýttar. Við vitum sem er verði þær ekki nýttar í Þingeyjarsýslum þá rennur frá okkur tækifæri til að snúa við þeirri hægfara hnignun sem ríkt hefur í alltof mörg ár. Tækifæri sem við munum trauðla fá aftur.


Spuninn um biðina eftir því að eitthvað gerist í Þingeyjarsýslum

Ýmsum forystumönnum Samfylkingarinnar er tíðrætt um að koma verði vinnu á stað við virkjun háhitasvæðanna í Þingeyjarsýslum sem allra fyrst. Þessi frasi er sunginn í sífellu með frösum eins og "að hleypa þeim að sem fyrstur vill fara af stað", "getum ekki beðið endalaust" og"bíðum við ekki heldur sækjum eftir verðmætum og eftirsóttum störfum íbúum á svæðinu til heilla" svo dæmi séu tekinn. Fyrir okkur sem höfum unnið hörðum höndum að uppbyggingu í Þingeyjarsýslum eru þessar setningar gott dæmi um spuna til að breiða yfir raunverulega ástæðu þess að hlutirnir eru stopp. 

Ástæðan fyrir því að allt er stopp á háhitasvæðunum í Þingeyjarsýslum er að Þórunn Sveinbjarnardóttir snéri við úrskurði Skipulagsstofnunar um að framkvæmdir við álver á Bakka þyrftu ekki í sameiginlegt umhverfismat. Ákvörðun sem var augljóslega tekinn með samþykki formanns Samfylkingarinnar til að lappa upp á hið Fagra Ísland frekar en markmiðið væri að vanda sérstakleg umhverfismat á framkvæmdinni á Bakka. Úrskurðurinn setti vinnu við umhverfismat allra framkvæmdanna fjögurra sem úrskurðurinn tók til á sama tímaplan. Áhrifin á Þeistareyki ehf eru að umhverfismat fyrir Þeistareykjavirkjun tefst um rúmlega ár. Bein afleiðing af því er að ekki er hægt að bora tilraunaholur til að sannreyna hversu mikil orka er á svæðunum. Vegna þess að ekki var hægt að sannreyna orkumagnið þá er ekki hægt að semja um orkusölu. Þegar ekki er hægt að semja um orkusölu þá er ekki hægt að fjármagna framkvæmdir. Þess vegna er allt stopp.

Ráðherrann fullyrti reyndar á fjölmennum fundi á Húsavík að úrskurðurinn myndi ekki tefja verkefnið nema hugsanlega um nokkra daga. Daginn eftir þegar við héldum fast við þá skoðun okkar að úrskurðurinn hefði alvarleg áhrif á verkefnið hringdu spunameistararnir í okkur og sögðu okkur að við værum flón, við ættum að fagna úrskurðinum. Við sveitarmennirnir klóruðum okkur auðvitað í kollinum þegar við höfðum fyrir framan okkur álit lögfræðinga sem fullyrtu að með úrskurðinum væri allt stopp, hvernig væri hægt að fagna því. Við saklausir sveitamennirnir höfum vegna orða ráðherrans eytt tugum milljóna til að komast hjá því að úrskurðurinn hefði þær afleiðingar sem við í raun hugðum í upphafi. Fyrir nokkrum mánuðum þá játuðum við okkur sigraða og tókum því sem hverju öðru hundsbiti að ekki yrði haldið áfram á Þeistareykjum fyrr en sameiginlegu mati væri lokið.

Spunameistararnir hafa auðvitað séð hver afleiðingin af úrskurðinum er. Þeir tala ekki um hversu hið sameiginlega mat er mikilvægt umhverfinu eða um töfinni sem það hefur á allar framkvæmdir. Þeir tala um að rjúfa þurfi kyrrstöðu, koma hlutum á hreyfingu, gefa í o.s.frv. Þeir trúa því að ef þessir frasar eru sagðir nógu oft þá gleymist hin raunverulega ástæða fyrir því að allt er fast. Við Þingeyingar erum hinsvegar með það á hreinu.


Veghefill þvert á veg

Ók á Þórshöfn fyrir tveim vikum og hugðist fara nýja veginn um Hófaskarð en hann fór ég fyrr í haust. Vegurinn  er fullbúin utan þess að síðustu 1.700 metrarnir eru ógerðir. Ekki reyndist mögulegt að fara veginn í þetta sinni því veghefil hafði verið lagt þvert fyrir veginn. Væntanlega til þess að enginn gæti ekið þennan ágæta veg sem hefur kostað vel á annan milljarð. Mér þótti það því góðar fréttir að heimamenn hafi fundið leið framhjá vegheflinum og keyrðu nú þennan ágæta veg hindrunarlaust.

Tók þátt í því í sveitarstjórn í vikunni að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir enn einni útfærslunni á þessum síðustu 1.700 metrum. Átti von á því að menn myndu byrja á framkvæmdum að bragði. Hef hinsvegar lúmskan grun um að þeir sem höndla með málið líti á það sem lausn að vegurinn verði ökufær næsta sumar. Fyrir heimamenn sem eru búnir að bíða eftir úrbótum á ömurlegum vegasamgöngum árum saman þá er það ekki ásættanleg lausn. Þannig að við verðum bara að laumast framhjá vegheflinum áfram meðan færi er. 


Skrifað undir viljayfirlýsingu um að orkan í Þingeyjarsýslum verði notuð í Þingeyjarsýslum

Sveitarfélögin Norðurþing, Skútustaðahreppur og Þingeyjarsveit skrifuðum undir viljayfirlýsingu við ríkið um notkun á orku í Þingeyjarsýslum til uppbyggingar í Þingeyjarsýslum. Það kemur fram í fréttatilkynningu að:

 „Markmið þeirrar vinnu sem hefst í kjölfar undirritunarinnar er að skapa þær aðstæður að þann 1. október 2010 verði allri nauðsynlegri forvinnu lokið þannig að unnt verði að ganga til samninga við stóran orkukaupanda / orkukaupendur um uppbyggingu orkufreks iðnaðar í Þingeyjarsýslum.

Aðilar eru sammála um mikilvægi þess að velja einn eða fleiri trausta, ábyrga og fjárhagslega sterka aðila til samstarfs um atvinnuuppbyggingu sem byggir á hagnýtingu orkunnar frá háhitasvæðum í Þingeyjarsýslum. Lögð verði áhersla á að orkan sem er að finna á háhitasvæðum í Þingeyjarsveit og Skútustaðahreppi verði nýtt til að skapa nokkur hundruð bein varanleg störf í Þingeyjarsýslum,"

 Við íbúar í Þingeyjarsýslum erum ákveðin í því að orka í þar verði nýtt til atvinnuuppbyggingar í Þingeyjarsýslum. Með því verði þeirri þróun snúið við að sífellt fækki fólki á svæðinu, börnum fjölgi í skólum og ungt fólk eigi afturkvæmt úr námi. Viðurkenning ríkisins á þessu megin sjónarmiði okkar  fékkst staðfest í þeirri viljayfirlýsingu sem ritað var undir í dag. Vonandi verður hægt í framhaldinu að hefjast handa af fullum krafti við uppbyggingu.


Sjálfstæðisflokkurinn styður verkefnið á Bakka

Á fundi kjördæmisráðs Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi var samþykkt eftirfarandi ályktun um álver á Bakka:


"Þingeyjarsýslur búa yfir ríkulegum náttúruauðlindum. Náttúrufegurð er mikil, gnægð orku í jörð og landgæði mikil. Atvinnuástand hefur hinsvegar verið fremur óburðugt og árstíðabundið. Af þessum ástæðum hefur mikil áhersla verið lögð á það af íbúum svæðisins að leiðir verði fundnar til að nýta þessar náttúruauðlindir. Í kjölfar uppbyggingar Fjarðaáls á Reyðarfirði vaknaði áhugi Alcoa á að nýta þá þekkingu og reynslu sem myndast hafði þar til að byggja nýtt álver. Í kjölfarið var viljayfirlýsing stjórnvalda og Alcoa um byggingu álvers á Húsavík undirrituð með það í huga að nýta orkuauðlindir meðal annars á Þeistareykjum. Ferill þess verkefnis er þyrnum stráður. Ákvörðun umhverfisráðherra Samfylkingarinnar sumarið 2008 setti strik í reikninginn og neitun ríkisstjórnarinnar, þvert á vilja íbúa svæðisins, á framlengingu viljayfirlýsingarinnar nú nýverið var reiðarslag fyrir þjóðina. Kjördæmisráð Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi skorar á ríkisstjórnina að endurskoða ákvörðun sína varðandi Bakka og afstöðuna almennt hvað varðar orkunýtingariðnað á Íslandi. Þá á að hverfa nú þegar frá áformum um orkuskatta en þeir gera ekkert annað en að hamla fjárfestingu og gjaldeyrisskapandi starfsemi".

 Ályktunin var samþykkt einróma.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband