17.8.2009 | 22:01
Hófaskarðsleið á valdi umhverfisráðherra
Hún lætur ekki mikið yfir sér fréttin um að Hófaskarðsleið verði ekki kláruð í bráð. Hér er þó um stóra frétt að ræða fyrir íbúa í Norður-Þingeyjarsýslu. Vegurinn yfir Hófaskarð mun gjörbreyta samgöngum milli Þórshafnar, Kópaskers og Raufarhafnar. Íbúar á svæðinu eru búnir að berjast lengi fyrir þessari tengingu. Hafa í raun sýnt ótrúlegt umburðalyndi við að bíða eftir þessum úrbótum. En vegurinn styttir vegalengdina milli Kópaskers og Þórshafnar um 50 km. Samtals er búið að eyða tæplega tveim milljörðum í þennan 54 km veg sem bíður eftir því að verða tengdur við veginn til Húsavíkur eða veginn til Kópaskers eftir því í hvora áttina maður fer.
En vegna deilna við landeigendur varða að finna nýja veglínu fyrir síðustu 2 kílómetrana. Fallið hefur hæstaréttardómur í málinu þar sem veglínu um land Brekku var hafnað. Ný tillaga Vegagerðarinnar er gerð í sátt við landeigendur. En nú þarf Skipulagsstofnun að láta til sín taka, 2 km kaflinn skal í umhverfismat. Öllum er þó ljóst að ekki er samkomulag um aðra veglínu. Málið er nú í höndum umhverfisráðherra sem getur látið umhverfismatið fara fram og tafið þannig tengingu við veginn í tæplega ár. Eða umhverfisráðherra getur hafnað því að umhverfismat fari fram þannig að tenging við hinn nýja veg geti farið fram í haust.
Séu einhverjir íbúar á þessu landi sem eiga það skilið að stjórnvöld bregðist þeim ekki þá eru það íbúar í Norður-Þingeyjarsýslu. Þeirra vegasamgöngur hafa verið hörmulegar alltof lengi. Ég skora á umhverfisráðherra að láta ekki fara fram tilgangslausa æfingu í umhverfismati á veg sem hvergi annarsstaðar getur verið lagður. Rétt er að úrskurða strax á morgun að þessi vegspotti fari ekki í umhverfismat þannig að íbúarnir fái langþráða tengingu í haust. Málið er í höndum umhverfisráðherra.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.8.2009 | 22:32
Icesave og ESB
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.8.2009 | 23:38
Veiðin í sumar
Góð veiði hefur verið á Laxamýri í sumar sérstaklega neðan Æðarfossa. Sýnist mér að 70% veiðinnar í Laxá hafi verið á Laxamýri. Þar hafa veiðast 6 laxar yfir 20 pund sem verður að teljast mjög gott og nú styttist í að þeir stóru fari að taka. Í fyrra veiddust reyndar á Laxamýri 13 laxar yfir 20 pund sem verður að teljast frábært.
Toppurinn á veiðinni hjá mér var þó í sumar þegar Björn Gunnar sonur minn fékk 14 punda fisk á Brúarflúð.Var þetta fyrsti lax Björns sem varð 7 ára í sumar. Tekin á Sunray shadow og settur í klak. Var það mjög í anda Björns G. Jónssonar afa hans heitins sem var mikil fiskræktarmaður.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.8.2009 | 22:29
Icesave
Icesave samningurinn er prófstein á það hvort núverandi stjórn valdi verkefni sínu. Því meira sem fjallað er um samninginn því augljósari eru gallar hans. Virðist vera sem megin markmið viðræðnanna hafi verið að fá greiðslufrest frekar en að semja um góð kjör eða halda hagsmunum Íslendinga til streitu.
Því miður læðist að manni sá grunur að löngun Samfylkingarinnar til inngöngu í ESB hefur tekið úr þeim allar tennurnar í samningum um Icesave. Því fleiri steinum sem velt er í þessu máli því augljósara er að samningurinn gengur gegn hagsmunum íslendinga og honum ber að hafna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.6.2009 | 22:11
Laxinn mættur í Laxá í Aðaldal
Gekk niður að Kistukvísl að vestan í dag. Þá lágu tveir 10-13 punda laxar við Staurinn silfurgljáandi. Ekkert stressaðir enda ekki séð eina einustu flugu þetta árið hvað þá veiðimann. Fiskarnir voru í dauðafæri þannig að ég fékk smá fiðring verða ég að viðurkenna.
Staurinn er einn besti veiðistaðurinn í Kistukvísl nefndur eftir rekaviðarstaur sem stendur á bakkanum. Rekaviðarstaurinn var hluti af kistunum sem notaðar voru til að veiða lax á árum áður. Reyndar voru kistuveiðar á Laxamýri lagðar niður af afa mínum Jóni Helga Þorbergssyni árið 1940 og áin leigð eftir það til stangveiði. Staurinn hefur því staðið á bakkanum í yfir 70 ár. Góð ending það.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.5.2009 | 22:25
Fyrning aflaheimilda
Hugmyndir um fyrningu aflaheimilda eru vanhugsaðar. Í einum vetfangi er ætlunin að gera sjávarútveginn aflvana. Flest sterkustu fyrirtæki landsbyggðarinnar eru sjávarútvegsfyrirtæki, í raun má segja að þau séu bakbeinið í atvinnulífi landsbyggðarinnar. Ekki er nú hægt að dást að stjórnviskunni við það að draga á þennan hátt máttinn úr þeim iðnaði sem draga þarf vagninn í endurreisn atvinnulífsins. Sérstaklega þegar stjórnvöld þurfa að endurreisa bankakerfið, skera niður ríkisútgjöld og sækja um aðild að ESB. Spurningin hvort ekki sé hægt að finna eitthvert annað svið þjóðlífsins sem hægt er að setja í uppnám.
Fólk á landsbyggðinni gerir þá kröfu til stjórnvalda að hagsmunir atvinnulífsins þar séu hafðir í fyrirrúmi. Ef nauðsynlegt er að ná fram réttlæti vegna kvótakerfisins þá er eðlilegt að menn skattleggi sérstaklega hagnað þeirra sem selja sig út úr kerfinu frekar en að hegna þeim sem keypt hafa aflaheimildir. Þá má hugsa sér að innheimta frekar auðlindagjald sem um munar. Það að svipta öll sjávarútvegsfyrirtæki í landinu veðhæfi er einfaldlega galið og ekkert réttlæti í því.
22.4.2009 | 23:05
Ekki álver á Bakka, ekki bora á Drekasvæðinu
Núverandi ríkisstjórnarflokkar láta okkur norðlendinga fá það óþvegið í dag. Rétt áðan var það dregið upp úr mínum gamla læriföður Össurri að hann styðji ekki byggingu álvers á Bakka eru þessi svör í samræmi við svör forsætisráðherra um sama efni. Gott var nú að fá þetta á hreint fyrir kosningar. Ofurlítið er þó undarlegt að ég hef fyrir framan mig auglýsingu frá Samfylkingunni í Skránni á Húsavík með mynd af Kristjáni Möller fyrir framan líkan að nýrri stórskipahöfn á Húsavík. Allir vita að hún er hönnuð til að taka á móti stórum súrálsskipum, þar hrósar ráðherrann sér af því að hönnun hennar hafi verið lokið með 100 milljóna fjárframlagi samgönguráðherra. Hvorki meira né minna, vel launaðir þessir ráðherrar.
Við norðlendingar erum auðvitað að upplifa það að unnið hefur verið að því í nokkurn tíma að hálfu Samfylkingarinnar að ýta verkefninu á Bakka út af borðinu, fyrst með því að setja verkefninu margfalt harðari umhverfiskröfur með útskurði um sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum álvers á Bakka. Og nú með yfirlýsingu iðnaðarráðherra um að hann vilji helst ekki að álver rísi á Bakka sú yfirlýsing leggur enn frekari steina í götu verkefnisins. Ekki finnst mér líklegt að erlendir fjárfestar fjárfesti hér í andstöðu við stjórnvöld.
Þá er fréttin um að umhverfisráðherra hafi efasemdir um að olíuleit á Drekasvæðinu samrýmist stefnu vinstri grænna athyglisverð. Ekki er annað að sjá en þetta stóra hagsmunamál okkar norðlendinga sé einnig í uppnámi.
Við norðlendingar viljum gjarnan hjálpa þjóðinni út úr kreppunni og getum það. Við hljótum hinsvegar að gera þá kröfu til stjórnvalda að okkar tækifæri til atvinnusköpunar hljóti sömu meðferð og tækifæri annarra landshluta. Hvað varðar verkefnin á Bakka og Helguvík þá er í mínum huga meðferðin á verkefninu á Bakka skýrt brot á jafnræðisreglu. Gott er fyrir okkur norðlendinga að hafa það í huga þegar við göngum að kjörborðinu á laugardaginn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
21.4.2009 | 23:06
Leiðin úr kreppunni
Vert er að veita þessum tillögum Sjálfstæðisflokksins athygli, sérstaklega því að leiðin út úr vandanum er að breikka skattstofnana frekar en að hækka skatta. Er nýkomin frá Bandaríkjunum þar sem menn hafa verið að lækka skatta til þess að komast út úr kreppunni. Tilgangurinn er að hvetja almenning til eyðslu. Það knýr áfram hagkerfið veitir vinnu og veltu í samfélaginu sem aftur skilar tekjum til ríkisins.
Megin verkefnið er að fá atvinnulífið aftur í gang. Við íbúar í Norðurþingi erum meira en tilbúin til að koma að því verkefni. Um leið og kreppan fer að láta undan skapast tækifæri til að keyra á uppbyggingu á álveri á Bakka. Nýlega var lokið líkanaprófunum á uppbyggingu stórskipahafnar á Húsavík. Þá er unnið að umhverfismati fyrir bæði álver og virkjanir sem verður lokið á árinu. Orkurannsóknir benda til að meira en næga orku sé að finna fyrir verkefnið á háhitasvæðum í Þingeyjarsýslum.
Stuðningur Sjálfstæðisflokksins við byggingu álvers á Bakka hefur alltaf verið afgerandi. Meira en sagt verður um núverandi stjórnarflokka. Vinstri grænir hafa ítrekað lýst því yfir að þeir styðji ekki verkefnið jafnvel við það atvinnuástand sem er í dag. Ég hvet íbúa Norðurlands til að styðja Sjálfstæðisflokkinn til að hjálpa okkur að láta þetta verkefni verða að veruleika. Við Þingeyingar viljum nýta orkuauðlindir okkar á heimavelli og þurfum ykkar stuðning til þess.
Efling atvinnulífs gegn fjármálakreppu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.3.2009 | 22:48
Góð tillaga sem vert er að skoða
Tillaga Tryggva um 20% afskrift á skuldum heimila og fyrirtækja er allra athygli verð. Gríðarleg viðskipti voru með fasteignir á síðustu fimm árum en því miður voru flest þessi viðskipti á of háu verði, langt umfram kostnaðarverð eignanna. Afleiðingin nú í lækkandi fasteignaverði er að þúsundir fjölskylda eru með neikvæða eignarstöðu. Það í sjálfum sér er efnahagsvandamál sem nauðsynlegt er að leysa.
Sama má segja um flest fyrirtæki en þau eru tæknilega gjaldþrota. Þótt ljóst sé að mörg fyrirtæki séu það skuldsett að þau þurfi að fara í gegnum sama feril og Morgunblaðið þ.e. að þeim komi nýir eigendur þá er tæplega viturlegt að svo fari fyrir flestum fyrirtækjum í landinu. Þannig að ef 20% afskrift myndi hjálpa stórum hluta fyrirtækja yfir erfiðasta hjallann þá væri það ómetanlegt skref í endurreisn efnahagslífsins.
Að verja þeirri afskrift sem fengist hefur á lánasafna bankanna á þennan hátt virðist við fyrstu sýn bæði vera sanngjarnt og nauðsynlegt. Fljótt á litið virðist það einnig tryggja best sem mest skil til kröfuhafanna.
Tryggvi Þór: 20% af skuldum heimilanna verði felldar niður | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 22.4.2009 kl. 22:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.3.2009 | 21:58
Endurreisnarnefnd Sjálfstæðisflokksins - nauðsynlegt uppgjör
Vert er að hrósa Endurreisnarnefnd Sjálfstæðisflokksins fyrir að tala umbúðarlaust um þau mistök sem gerð voru við stjórn efnahagsmála á síðustu árum. Því aðeins að flokkurinn viðurkenni þau mistök sem hann hefur gert verður hann traustsins verður að nýju. Viðurkenning á mistökum er forsenda fyrir endurreisn flokksins.
Það að selja ekki báða bankana í dreifða eignaraðild við einkavæðingu þeirra verður að teljast með mestu mistökum sem gerð voru. Það að selja þá eftir gömlu helmingaskiptareglunni var ekki á samræmi við hugsjónir Sjálfstæðisflokksins. Ég man sérstaklega eftir því að rætt var opinskátt í stjórnendahóp er ég tilheyrði á þeim tíma að Halldór Ásgrímsson hafi freistað þess að fá Kaldbak og Ólaf Ólafsson til að sameinast um tilboð í Búnaðarbankann. Framsókn leit augljóslega þannig á það að eftir söluna á Landsbankanum að Búnaðarbankinn tilheyrði þeim. Auðvitað náðu samvinnumennirnir ekki saman þannig að báðir hóparnir gerðu tilboð í bankann sem var seldur Ólafi Ólafssyni og félögum. Spurningin er hvort Ólafur og félagar hafi verið í betra vinfengi við Halldór heldur en þeir Kaldbaksmenn. Eitt er þó klárt, Sjálfstæðisflokkurinn má aldrei aftur líða svona vinnubrögð.
Þá verður að taka undir það að það var fullkomlega fráleitt að enginn skyldi taka ábyrgð á bankahruninu á þeim 100 dögum sem liðu frá hruninu og ríkisstjórnin hrökklaðist frá. Sala ráðuneytisstjóra fjármálaráðuneytisins á hlutabréfum í Landsbankanum nokkrum dögum eftir fundi erlendis um Icesave hefði þurft að leiða til afsagnar hans umsvifalaust. Jafnvel þótt salan hafi verið af fullkomlega eðlilegum ástæðum. Þá hefði verið eðlilegt að gera breytingar á ríkisstjórninni vel fyrir jól til að auka trúverðugleika hennar. Flokkurinn þarf að setja sér ný viðmið um það hvað leiðir til afsagna kjörinna fulltrúa hans.
Rétt er að taka undir kafla nefndarinnar um pólitískar stöðuveitingar, þær eru með öllu óafsakanlegar. Ég er reyndar á því að almenna reglan hjá Sjálfstæðisflokknum undanfarinn 18 ár hafi verið að hæfi réði því hverjir væru ráðnir. Það er í samræmi við hugsjónir sjálfstæðismanna að hæfileikar manna ráði því hverjir hljóta aukna ábyrgð en ekki skoðanir þeirra.
Margt annað í skýrslu Endurreisnarnefndar má taka undir og hún er gott innlegg í það að endurreisa traust á Sjálfstæðisflokknum.